Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:53:17 (3644)

1999-02-16 13:53:17# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa allmargir þingmenn Vestfjarðakjördæmis talað. Mig langar að gera hér að umræðuefni þær aðstæður sem tvö byggðarlög í Vestfjarðakjördæmi búa nú við þegar það liggur fyrir að rækjukvótinn er skertur eins og raun ber vitni. Ég er að tala um Drangsnes og ég er að tala um Hólmavík.

Það liggur fyrir að innfjarðarrækjan hefur haldið uppi atvinnu á þessum stöðum um 30 ára skeið og að meðaltali hefur kvótinn verið 1.800 tonn í Húnaflóa. Hann er núna 500 tonn. Hann hefur farið hæst í næstum því 3.000 tonn. Við sjáum því hvað hér er um að ræða. Það er verið að svipta þessi byggðarlög algjörlega atvinnu. Fjölmargir menn sem hafa atvinnu í landi og fjölmargir menn sem hafa atvinnu á bátaflotanum tapa störfum sínum. Hvað á að gera hér?

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kemur hér og bendir á 9. gr., en hæstv. sjútvrh. skirrist við að vilja beita henni. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að ráðherrann taki af skarið hérna og lýsi því yfir hvort hann ætli að verða við þeim áskorunum sem tveir þingmenn stjórnarliðsins hafa hér komið fram með. Ég held að það sé nauðsynlegt. Og það er líka nauðsynlegt að hv. formaður sjútvn. skýri það í umræðunni á eftir hvernig hann hyggst beita sér í þessu máli, vegna þess að það er alveg ljóst að skoðanir hans eru allt aðrar en þær sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram í þessu máli.