Útflutningur á íslenskri dægurlagatónlist

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:34:32 (3717)

1999-02-16 18:34:32# 123. lþ. 66.67 fundur 505. mál: #A útflutningur á íslenskri dægurlagatónlist# þál., Flm. MagnM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:34]

Flm. (Magnús Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég legg fram till. til þál. um útflutning á íslenskri dægurlagatónlist. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skipa skuli nefnd fagaðila og aðila úr menntamálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og utanríkisráðuneyti til að skoða hvernig íslenska ríkið gæti stutt útflutning á íslenskri dægurlagatónlist.``

Á undanförnum árum hafa Íslendingar verið að opna augun fyrir þeim miklu tækifærum sem felast í útflutningi á dægurlagatónlist. Velgengni ákveðinna íslenskra listamanna á erlendum mörkuðum hefur sýnt að við eigum sóknarfæri þegar íslensk popptónlist er annars vegar og að fátt getur vakið eins mikla athygli á landi og þjóð meðal alþýðu manna í hinum stóra heimi og vel kynntir einstaklingar eða hljómsveitir á sviði dægurlagatónlistar.

Því er full ástæða til að skoða í fullri alvöru hvað íslenska ríkið getur lagt af mörkum til að styðja alþjóðlega markaðssókn íslenskra popptónlistarmanna sem oftast eru ungir að árum, févana og reynslulausir í viðskiptum. Þessar aðgerðir þyrftu ekki að vera fjárfrekar og gætu til að mynda falist í því að koma á tengslum við áhrifaríka einstaklinga innan þessarar atvinnugreinar og halda til haga upplýsingum um hvernig á að bera sig að við markaðssetningu popptónlistar. Einnig þarf að gera gagngera úttekt á því skattaumhverfi sem popptónlistarmenn búa við hér á landi til að við missum þá ekki úr landi eins og dæmi eru um.

Skynsamlegt væri að horfa til þeirrar reynslu og þekkingar sem skapast hefur í Svíþjóð, en það kann að koma fólki á óvart að Svíar eru nú annar stærsti útflutningsaðili popptónlistar í Evrópu, þrátt fyrir að vera einungis tæpar 9 milljónir, og eru það einungis Bretar sem standa þeim framar. Þess má geta að útflutningstekjur Svía af popptónlist voru á síðasta ári milli 20 og 30 milljarðar íslenskra króna.

Við Íslendingar við höfum ákveðin sóknarfæri í þessum geira. Við höfum þegar öðlast gæðastimpil, tónlistarlegan gæðastimpil á popptónlist okkar, og það er almennt álit þeirra sem til þekkja úti í hinum stóra heimi að íslensk popptónlist sé mjög vönduð og mikill listrænn metnaður í henni og kemur það að sjálfsögðu til vegna hinna stóru sigra Bjarkar Guðmundsdóttur á erlendum mörkuðum. Hvað ætli margir popptónlistarmenn hafi hlotið tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs eins og hún hlaut fyrir fáum árum?

Það eru fleiri hljómsveitir og tónlistarmenn íslenskir sem hafa vakið alþjóðlega athygli. Það hefur ekkert farið mjög hátt, finnst mér, í fjölmiðlum hér að til að mynda hljómsveitin GusGus hefur selt 250 þúsund plötur erlendis og hún hefur velt, segja mér þeir sem til þekkja, um hálfum milljarði kr. á þeim þremur árum sem sveitin hefur starfað.

Skattaumhverfi fyrir starfsemi alþjóðlegrar popptónlistar hér á landi er ekki mjög þróað eða greininni hagstætt, og hefur valdið því að við höfum misst úr landi mikilvæga aðila á þessu sviði og jafnvel gæti svo farið að við mundum missa fleiri slíka úr landi og það veldur okkur auðvitað búsifjum. Þar verðum við af tekjum sem mundu annars streyma inn í þjóðarbú okkar. Mér skilst að þeir sem standa í þessum útflutningi og í markaðssetningu þessa varnings mæti litlum skilningi opinberra aðila hér á landi og að svörin séu venjulegast þau að þetta sé vandamál af því að þetta hefur aldrei verið gert áður og að menn þekki ekki hvernig á að bera sig að við þessa útflutningsgrein. Nýsköpunarsjóður kemur ekki inn í þetta af því að hann skiptir sér ekki af hlutum sem gætu hugsanlega verið í samkeppni á innanlandsmarkaði. Þar hefur því verið litla hjálp að fá fyrir þá sem hafa viljað stuðla að útflutningi á íslenskri popptónlist.

Hugmyndin hérna er að skipuð verði nefnd fagaðila, þ.e. aðila sem hafa starfað í þessum geira og aðila frá ríkinu, úr menntmrn., viðskrn. og utanrrn. sérstaklega, sem geti skoðað hvernig hægt væri að koma til móts við þetta fólk og hvernig þetta gæti orðið útflutningsgrein sem mundi skila okkur tekjum í þjóðarbúið, þó ekki væri nema broti af þeim tekjum sem þetta skilar Svíum.

Þetta er ákveðið átaksverkefni, sem þyrfti ekki að vera mjög dýrt að fara í, að taka saman einhverjar upplýsingar fyrir fólk sem hyggst fara út í þetta til þess að upplýsa það um hvernig það eigi að bera sig að. Það er það sem t.d. Svíar hafa lagt mikla áherslu á. Þeir hafa byggt upp mjög góða og umfangsmikla þekkingu á því hvernig á að markaðssetja popptónlist og hafa haldið ráðstefnur og halda reglulega ráðstefnur á hverju ári og flytja inn stóra aðila á hinum alþjóðlega poppmarkaði sem flytja þar fyrirlestra og sitja í ,,panel`` og taka við fyrirspurnum frá áhugasömum tónlistarmönnum eða öðru fólki innan þessa geira sem vill kynnast því starfi sem fram fer innan þessarar atvinnugreinar.

Það er t.d. hugmynd að það væri hægt að halda alþjóðlega tónlistarhátíð á Íslandi einu sinni á ári og bjóða hingað fólki sem vit hefði á og gæti miðlað þekkingu til Íslendinga um hvernig standa ætti að svona málum.

Eins og áður er sagt hafa Svíar lagt mikla áherslu á þessa atvinnugrein. Þeir áttu sitt stóra gegnumbrot þegar Abba sló í gegn á áttunda áratugnum. Við eigum okkar Abba. Björk er okkar Abba, hún hefur komið Íslandi á kortið. Sem dæmi um það sem Svíar eru að gera tók ég með mér bæklinga. Þeir láta búa til bæklinga þar sem í eru ekki bara ein eða tvær hljómsveitir heldur fjöldinn allur af hljómsveitum og þeim er dreift til réttra aðila í bransanum á mikilvægum stöðum, í Frakklandi, í Los Angeles, í New York, þar sem saman koma menn sem eru alltaf að leita að nýju hæfileikafólki og kynnast þá því sem Svíar hafa upp á að bjóða. Þeir styðja myndarlega við bakið á sínu fólki í þessum efnum, enda er arðurinn töluverður eins og sýnt er fram á í þeim tölum sem ég hef hér.

Þetta er arðbær atvinnugrein og það er ekkert til að skammast sín fyrir að búa til popptónlist. Við erum vel í sveit sett, miðað við önnur Evrópuríki. Við erum á sama tímabelti og London, sem þýðir að við erum einungis átta tíma frá Mekka fjármögnunar og útgáfustarfsemi í heiminum, sem er Los Angeles, á meðan afgangurinn af Evrópu er tíu tíma í burtu. Það getur skipt máli fyrir staðsetningu hljómsveita að geta náð í fólk á eðlilegum tíma í báðum tímabeltum.

Ég flyt þessa till. hér til þál. og vona að hún veki einhverja athygli. Ég geri mér grein fyrir því að það er harla ólíklegt að hún nái í gegnum þingið á þeim skamma tíma sem eftir er til stefnu en vona að einhver andi úr henni fljóti eða síist a.m.k. inn í stjórnkerfið og jafnvel að hún verði tekin upp að hausti, ef hún nær ekki í gegn núna, en þó ætla ég ekki að gefa upp alla von um að slíkt gæti þó gerst. Ég vil hvetja Íslendinga til að taka sig á áður en við glutrum þessu tækifæri niður og missum efnilegustu listamennina okkar úr landi.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til hv. menntmn. og til síðari umr.