Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:24:07 (3786)

1999-02-17 18:24:07# 123. lþ. 68.13 fundur 468. mál: #A Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:24]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Egilsstaðaflugvöllur er búinn ágætum snjóruðningsbúnaði en aðeins einu tæki af hverri gerð. Þannig er til staðar nýleg vörubifreið með snjótönn, nýlegur flugbrautarsópur og snjóblásari. Jafnframt er einn gamall snjóblásari á staðnum. Nú hefur bæst við nýlegur vörubíll með nýjum sanddreifara sem kemur í stað eldra og afkastaminna tækis. Jafnframt býður hann upp á blöndun með afísingarvökva en ís á flugbrautum hefur reynst nokkru erfiðari viðureignar á Egilsstaðaflugvelli en á flugvöllum sem standa nær sjó.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að afísing með þar til gerðum vökva er ekki beitt á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar. Ástæðan er sú að afísingarvökvinn er mjög dýr og einnig búnaðurinn sem notaður er til að dreifa honum. Því hefur fram til þessa nánast eingöngu verið notast við sand til að bæta hemlunarskilyrði. Nokkrar vonir eru bundnar við að íblöndun sands með afísingarvökva muni auka viðloðun sandsins við ís.

Eins og hér hefur komi fram er á Egilsstaðaflugvelli um einfaldan búnað að ræða til snjóhreinsunar í flestum tilvikum. Stefnt er að því að tvöfalda allan búnað á þeim flugvöllum sem gegna hlutverki varaflugvallar, þ.e. Egilsstöðum og Akureyri. Á Egilsstöðum mundi kostnaður samfara þessu vera 45--50 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir nýjum flugbrautarsóp, snjótönn, ístönn og snjóblásara. Búast má við að þessi búnaður verði keyptur á næstu þremur árum en þess er vænst að aukið fé verði lagt í tækjasjóð við endurskoðun flugmálaáætlunar síðar á þessu ári. Fjárveiting á flugmálaáætlun fyrir tækjabúnað af þessu tagi fyrir alla flugvelli á landinu er um 35 millj. kr. á þessu ári.

Hvað þjónustu varðar er núverandi mönnun viðunandi, tveir starfsmenn eru á vakt að nóttu til og hafa engar athugasemdir verið gerðar við það fyrirkomulag.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja. Ég hef óskað eftir því að flugmálastjóri gefi mér svar um bréf starfsmanns Flugmálastjórnar á Egilsstöðum. Vissulega er það alvarlegt ef starfsmenn Flugmálastjórnar meta það svo að flugvellir standi ekki undir nafni og er sjálfsagt að starfsmaðurinn fái tækifæri til að gera frekari grein fyrir því.