Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:29:18 (3788)

1999-02-17 18:29:18# 123. lþ. 68.13 fundur 468. mál: #A Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:29]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin við fyrirspurn minni. Þau bera með sér að úrbætur hafi nýverið verið gerðar varðandi möguleika til dreifingar sands blönduðum afísingarvökva, ef ég hef skilið málið rétt, sem er áreiðanlega nokkurs virði.

Hæstv. ráðherra gat og um snjóruðningstæki, að bæta ætti við búnaði sem kostaði 45--50 millj. kr. á næstu þremur árum. Það bætir væntanlega aðstæður, ef ég skil samhengið rétt.

[18:30]

Mig langar að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra, ef unnt er að veita, hvort ákvarðana um þessar fjárveitingar sé að vænta fyrr eða síðar á þessu þriggja ára tímabili eða hvort það sé ákvörðunaratriði við endurskoðun flugmálaáætlunar, og legg auðvitað áherslu á það að þessi búnaður fáist fyrr en síðar.

Þá langar mig einnig að inna hæstv. ráðherra eftir því sem snýr að veðurspá frá Egilsstöðum, hvort ráðherra sé kunnugt um hvort gjöf upplýsinga um veður, veðurspá, veðurhorfur, sé fullnægjandi með tilliti til reksturs flugvallarins sem varaflugvallar, því ég held að það skipti mjög miklu að flugmenn og flugrekendur fái sem gleggstar upplýsingar einmitt um slíkar aðstæður þannig að það þurfi ekki að koma í veg fyrir nýtingu vallarins.

Sá flugvöllur sem má segja að geti keppt við Egilsstaðaflugvöll sem varaflugvöllur fyrir utan Akureyri er flugvöllurinn í Glasgow sem mun hafa verið notaður og er notaður á stundum þegar skilyrði eru þannig. Við þurfum auðvitað að reyna að nýta okkar aðstæður sem best í þessum efnum þannig að varaflugvellir innan lands séu notaðir eftir því sem öryggi og möguleikar frekast leyfa.