Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:40:39 (3855)

1999-02-18 12:40:39# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:40]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get viðurkennt að ég mundi vafalaust bera einhvern ótta í brjósti yfir gengi samfylkingarinnar ef hún sýndi einhverja stefnu og ef hún sýndi einhverja stefnu sem ég óttaðist. En það er komið á daginn, eins og mig reyndar grunaði, að samfylkingin hefur enga stefnu og hún hefur gott gengi meðan hún hefur enga stefnu. Það á eftir að koma í ljós hvert gengi hennar verður. Það er vonandi að stefnan finnist fyrir kosningar.

Ég tek það sem svo að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að það eigi að strika út öll áform um atvinnuupppbyggingu bæði á Austurlandi og Reykjanesi og við Hvalfjörð og allar málmbræðslur yfirleitt. Það er skýr stefna og ég vona að hann hafi borið hana saman við kollega sinn hv. 11. þm. Reykn., Ágúst Einarsson, og fleiri úr því kjördæmi.