Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:04:37 (3867)

1999-02-18 13:04:37# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvað valdi afstöðubreytingu þess sem hér stendur og Alþfl. varðandi bráðabirgðaákvæði sem var að finna í því sem síðar varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hæstv. ráðherra hefur fyllsta rétt til að óska a.m.k. eftir viðhorfi eða skýringu minni á þessu. Ég minnist þess ekki, herra forseti, þegar þetta frv. var að fara í gegn, a.m.k. í mínum þingflokki, að Fljótsdalsvirkjun hafi komið til tals utan einu sinni og ég kannaði það mál ekki sérstaklega. Ég man að þá var sagt að engar líkur væru á því að þessi virkjun yrði nokkru sinni að veruleika. Það er nú kannski ekki skýringin á afstöðubreytingu minni ef um afstöðubreytingu er að ræða. En það sem hefur þó breyst er til að mynda það umhverfi sem fæddi af sér Kyoto-samninginn. Ég var upphaflega ekki trúaður á þær breytingar sem raktar voru til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ég var annarrar skoðunar um nokkurra ára skeið. En ég varð að lokum að láta í minni pokann fyrir rökum sem að mér var beint. Það er kannski meginskýringin, ef hæstv. ráðherra mætti vera að því að hlýða á mál mitt milli þess sem hann er að gefa ýmsum kontóristum sínum góð ráð og vafalaust er ekki vanþörf á því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess sem hann sagði hér um frummatsskýrslu Landsvirkjunar á Fljótsdalsvirkjun. Hæstv. ráðherra kom hingað 12. október á síðasta ári, ef ég man rétt, og sagði: ,,Sú skýrsla mun liggja fyrir í byrjun desember og ákvörðun um þetta verður tekin í lok desember.`` Nú kemur hæstv. ráðherran og segir að hann hafi óvitandi farið með rangt mál að því leyti til að skýrslunni hafi seinkað. Ég spyr hann þá: Hvenær mun þessi skýrsla liggja fyrir? Það sem mér ríður á að fá að vita er: Mun hann í ljósi breyttra aðstæðna, sem hafa komið fram í hans eigin máli hér fyrr í dag, beita sér fyrir því að Fljótsdalsvirkjun verði sett í lögformlegt umhverfismat?