Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:58:30 (3872)

1999-02-18 13:58:30# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gætir örlítils misskilnings í þessu hjá hv. þm. Að langstærstum hluta til eru þeir aðilar sem hafa rétt til að virkja í dag annaðhvort í eigu ríkisins eða sveitarfélaga. Sá sem er með 93% af virkjanaheimildum í landinu er Landsvirkjun, sem er í 50% eigu ríkisins og 50% eigu sveitarfélaga, þ.e. 45% Reykjavíkur og 5% Akureyrar. Þarna er engin breyting á.

Breytingin er þó sú að þetta er stefna. Þetta er stefna núverandi ríkisstjórnar. Ef við horfum á Norðurlandið er það svo að þar þyrftum við að fá inn fleiri sölupunkta, sem kallaðir eru, inn á kerfið til þess að halda jafnari orkunotkun eða orkustreymi á því svæði.

Því er mikilvægt að taka einmitt inn virkjun á þessum stað. Landsvirkjun hefur þennan rétt. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun mun ekki sækjast eftir því að fara að virkja á þessum stað fyrst um sinn. Ástæðan er sú að Landsvirkjun er ekki fyrst og fremst að vinna orku fyrir almenna markaðinn. Þetta er ekki hagkvæm virkjun til þess að selja inn í stóriðjuna sem er á lægra verði. Þetta er hagkvæm virkjun til að selja inn á almenna markaðinn.

Það er af þeirri ástæðu að Rarik, því má ekki gleyma, er 100% í eigu ríkisins --- ekki sveitarfélaga --- fær þennan rétt í samvinnu við heimamenn sem geta í þessu tilviki verið sveitarfélög eða einkafyrirtæki á staðnum. Það er mikilvægt að hafa það í huga eins og kom fram fyrr við umræðuna að árið 2001, ef við höldum þessum rétti og þeim fyrirvörum sem við höfum gert gagnvart Evrópusambandinu, þá verði frá og með þeim tíma alveg sérfyrirkomulag á úthlutun virkjanaheimilda. Þar er um tvær leiðir að ræða sem mér gefst ekki tími til að fara yfir. En ég vil spyrja hv. þm.: Hvaða náttúruperlur eru það sem hv. þm. er að halda fram að verið sé að sökkva samkvæmt þessu frv.?