Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 13:53:56 (4024)

1999-02-25 13:53:56# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við höfum að undanförnu litið sérstaklega til hagsmuna barnanna og reynt að tryggja betur hag þeirra með því að taka meiri þátt í skólagjöldum og jafnframt, t.d. í Brussel, að efla bókasafn barna því að mjög margir Íslendingar búa þar og starfa. Það er mjög mikilvægt að íslensk börn njóti þar réttinda sem samrýmast réttindum íslenskra barna.

Að því er varðar maka starfsmanna í þjónustu utanríkisráðuneytisins þá hefur farið fram veruleg athugun á þeim málum. Það mun hins vegar kosta nokkra fjármuni og við höfum ákveðið að taka það upp í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og fjárlög fyrir árið 2000. Lausnir í því sambandi sem við höfum einkum í huga taka mið af sambærilegum lausnum annars staðar á Norðurlöndunum en það er alveg ljóst að makar starfsmanna utanríkisþjónustunnar búa við nánast ekkert atvinnuöryggi og það er mjög sjaldgæft að þeim takist að finna sér vinnu við hæfi vegna þeirra miklu flutninga sem þeir búa við.

Auðvitað á þetta að einhverju leyti við um aðra þegna þessa þjóðfélags. Ég hygg þó að enginn einn hópur búi við sambærilegar aðstæður og makar starfsmanna í utanríkisþjónustunni.