Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:16:44 (4048)

1999-02-25 15:16:44# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að svara nokkrum fyrirspurnum sem hafa komið fram. Að því er varðar norrænu víddina skiptir það okkur afar miklu að þetta mál skuli vera tekið upp á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópusambandið skuli gerast aðili að því á þann hátt sem til stendur. Við höfum lengi barist fyrir því að stofna Norðurskautsráðið, sem orðið er að veruleika, en það er ekki nóg. Það verður líka að beina athyglinni í meira mæli að þessum svæðum, beina athyglinni í norður og í vestur og ég tel að með því að norræna víddin hefur verið samþykkt innan Evrópusambandsins að frumkvæði Finna, þá muni það skipta miklu máli fyrir okkur Íslendinga.

Að því er varðar Rómarsamþykktina um hinn alþjóðlega sakamáladómstól, þá stefnum við að því að koma með það mál inn á Alþingi næsta haust eða utanrrn. stendur að þeim undirbúningi. Búið er að þýða þann samning þannig að hann er nánast tilbúinn. Jafnframt honum þarf að vinna að löggjöf á vettvangi dómsmrn. og við höfum verið í sambandi við það og ég veit ekki betur en að það mál sé komið nokkuð á rekspöl.

Ég vildi í þessu sambandi nefna það sem hv. þm. sagði í lokin um flóttamenn. Framlagning á frv. til laga um útlendinga, er snertir þetta mál, hefur verið samþykkt í ríkisstjórninni. Ég veit að þetta mál var afgreitt í þingflokkum stjórnarflokkanna í dag eða gær, a.m.k. var það inni á borði hjá okkur í Framsfl. og ég reikna með að það hafi líka verið inni á borði hjá Sjálfstfl., og á ekki von á að nokkur fyrirstaða hafi verið í sambandi við það mál.

Ég hef því miður ekki tíma til að koma inn á ýmis mannréttindamál sem hv. þm. ræddi um en vænti þess að ég geti e.t.v. gert það í síðara svari mínu.