Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:00:14 (4068)

1999-02-25 16:00:14# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hafa alltaf verið til stjórnmálaöfl í landinu sem hafa lagst á móti aðild Íslands að öllum fjölþjóðlegum sáttmálum sem landið hefur gert, á hvaða sviði svo sem það hefur verið. Samt sem áður hafa Íslendingar gert fjölþjóðlega sáttmála sem að allra mati hafa verið jákvæðir og þjóðinni til framdráttar. Þeir sem voru á móti því á sínum tíma að slíkir samningar yrðu gerðir hafa aldrei tekið það mál upp aftur eftir að samningarnir hafa verið gerðir með það að markmiði að hnekkja þeim.

Stefna Samfylkingarinnar er mjög skýr. Ekki er gert ráð fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili en við ætlum að taka málið á dagskrá, m.a. á sama hátt og kollegar hv. þm. í verkalýðsforustunni og fyrrverandi samherjar hans um andstöðu við aðild Íslands að EES-samningnum hafa gert með kynningarbæklingum sínum og umfjöllun. (ÖJ: Við viljum þjóðaratkvæðagreiðslu.) Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér afstöðu bæði kollega sinna í verkalýðsforustunni á Norðurlöndunum og kollega sinna í Alþýðusambandi Íslands og athuga að hve miklu leyti hann eigi samleið með þessu fólki. (ÖJ: Samleið með þjóðinni. Þið meinuðuð okkur um þjóðaratkvæðagreiðslu.)