Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:20:16 (4072)

1999-02-25 16:20:16# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir afar miklu máli í öllum samningum og samningaviðræðum að línur séu sem skýrastar, að aðilum megi vera ljóst hvað við er átt. Sagt hefur verið að menn muni skapa sér einhvern sérstakan velvilja með því að skrifa undir. Hver getur fært sönnur á það? Er ástæða til þess að vera að skapa sér slíkan velvilja nema það sé þá á réttum forsendum? Verðum við ekki að koma fram í þessu samningaferli með okkar skoðanir og standa á sjónarmiðum okkar og berjast fyrir málstað okkar og gera það hnarreist og stolt vegna þess að við höfum góðan málstað til að berjast fyrir?

Ég heyri á hv. þm. að hann treystir sér ekki í það og telur að við séum að verja vondan málstað, að það sé vondur málstaður að hafa möguleika opna til þess að geta nýtt orku okkar bæði í fallvötnum og í jarðvarma. Það er skoðun hans. Það er ekki skoðun okkar. En reynsla mín er sú að alltaf sé best að koma til dyranna eins og maður er klæddur í þessu samhengi með ákveðna stefnu. Ég get út af fyrir sig skilið að Samfylkingin getur ekki gert það vegna þess að hún hefur ekki mótað þessa stefnu. Þeir hafa að vísu gert það á Austurlandi. Það er eina stefnan sem hefur verið birt. En ég heyri á hv. þm. að hann hefur ekki lesið hana og væntanlega er hann ekki sammála henni. En það er a.m.k. eina stefnan sem ég hef séð. Þar er gert ráð fyrir virkjunum og stóriðju og ég hvet hv. þm. til að bregða sér austur á land.