Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:57:07 (4080)

1999-02-25 16:57:07# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða sem hér var flutt var mjög einkennandi fyrir kaldastríðssveit Sjálfstfl. Þegar það gerist í fyrsta skipti að íslenskur utanrrh. leggur fyrir Alþingi greinargerð um endurmat á öryggismálum Íslands með nýjum hugmyndum og tillögum, þá kemur hv. þm. upp og segir: Hér er ekkert nýtt að finna. Hér er ekki ferskur blær. Þetta var það sem hann hafði um framlag utanrrh., í ríkisstjórn sem hann styður, að segja. Hann sagði að hann hefði ekkert nýtt fram að færa og þar væri enginn ferskur blær. Hv. þm. er trúr íhaldshugsjón sjálfstæðismannanna, lemur höfðinu við steininn og segir: Stalín er enn þá hér.

Það er ekki nóg með það, heldur taka þeir nú, formælendur kalda stríðsins í Sjálfstfl., saman höndum við þá fáu þingmenn sem enn vilja varðveita andann frá 1960 til að innleiða á Alþingi umræður og afgreiðslur um slík mál. Þeir þurfa, eins og í gær á fundi utanrmn., að snúa upp á hendurnar á samstarfsmönnum sínum í Framsfl., sem neita að taka þátt í þessu sjónarspili, og beita þá afli til að fá þá til að taka saman við sig um að innleiða kaldastríðsviðhorfin í umræður í þinginu hér á ný. Svona er nú málið í pottinn búið.

Þetta eru menn sem lifa í fortíðinni. Þeir leyfa sér að segja, um sinn eigin utanrrh., þegar hann í fyrsta skipti í sögunni leggur fyrir Alþingi greinargerð um endurmat á öryggismálum landsins, að þar sé ekkert nýtt að finna, engan ferskan blæ. Þannig vilja þeir ekki hafa það. Þeir vilja engan ferskan blæ í þessa umræðu. Þeir gera sér ekki ljóst að Stalín er ekki lengur hér.