Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:09:13 (4086)

1999-02-25 17:09:13# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. Árni M. Mathiesen strjúki aðeins hæstv. utanrrh. og segi að hann geri þó eitthvað rétt því að hann er nú búinn að fara þeim orðum um þessa ágætu skýrslu hæstv. ráðherra að mál er til komið að hann segi eitthvað jákvætt og fallegt við þennan ágæta samstarfsmann sinn.

Herra forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að drepa á nokkuð sem hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan og ég komst ekki að til þess að ræða af því að ég þurfti að upplýsa hann um undirstöðuatriði í mannasiðum. En það var það sem hann sagði um stefnu Samfylkingarinnar í öryggismálum. Það er einfaldlega alveg ljóst og hefur komið fram, herra forseti, alveg sama hvað hv. þm. Árni M. Mathiesen tuðar og tuðar, að það er ekki stefna Samfylkingarinnar að breyta öryggisstefnu íslenska lýðveldisins.

Hv. þm. segir hins vegar eða það hefur komið fram hjá Sjálfstfl.: ,,Þið segið bara næstu fjögur árin en hvað eftir það?`` Hann lætur í það skína að þegar þeim fjórum árum sleppir verði auðvitað farið í það að reka herinn og segja Ísland úr NATO.

Herra forseti. Samfylkingin hefur líka stefnu í heilbrigðismálum sem nær til fjögurra ára. Má þá e.t.v. á sama hátt túlka þessa stefnu þannig, vegna þess að við höfum ekki stefnu lengur en í fjögur ár, vegna þess að einungis er um ræða verkefnaskrá, að við ætlum að leggja heilbrigðiskerfið niður að fjórum árum liðnum? Að sjálfsögðu ekki, herra forseti.

Þetta tek ég til marks um það hvað tátólógían er orðin djúp hjá hv. þingmönnum Sjálfstfl. Þeir seilast eins langt og þeir geta til þess að vera ómálefnalegir og til þess að reyna að koma höggi á Samfylkinguna. Hvers vegna? Vegna þess að þeir standa allt í einu frammi fyrir því að komið er fram stjórnmálaafl sem er orðið jafnstórt þeim sjálfum. Og það er tilfinning sem þeir hafa ekki fundið á skrokki sínum mjög lengi.