Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:01:06 (4110)

1999-02-26 11:01:06# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hitaveita Suðurnesja er áhugavert fyrirtæki en nokkuð af annarri stærð og gerð en Rafmagnsveitur ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins eru gífurlega stórt og umfangsmikið ríkisfyrirtæki og ég hefði ekki af því miklar áhyggjur þó við værum að gefa Rafmagnsveitum ríkisins heimild til að taka þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum. En það segir í lagaheimildinni ,,... að stofna og eiga hlut í félögum sem hafa það að megintilgangi að framleiða, flytja, dreifa eða selja orku`` og ég óttast að í því geti falist möguleikar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að byrja að taka inn undir sig með ýmsum hætti öll önnur smærri fyrirtæki og t.d. þau sem eru nefnd í greinargerð. Mér finnst að það væri of stór heimild fyrir Alþingi að afhenda Rarik og tveimur ráðherrum í samvinnu í ríkisstjórn hverju sinni.

Þess vegna legg ég mikla áherslu á að iðnn. skoði málið vel og ekki verði freistast til, vegna þess að þetta sé svo lítið frv. með einni lagagrein og einfalt að gerð, að nú sé nóg að kalla einhvern einn eða tvo aðila til. Það þýðir ekki að koma eftir á og segja: Það átti að gefa takmarkaða heimild en lagaheimildin reyndist svo víð að menn gátu gert hvað sem var síðar. Við verðum alltaf að hugsa um þegar við erum að setja lög að þeir aðilar geti setið á þessum ráðastólum sem hafi aðra hugsun en þeir sem sitja þar þegar frv. eða lögin eru sett og að í þeim tilvikum verði hægt að fara allt aðra leið en sitjandi ráðherra sem flytur frv. hugsar sér. Því vara ég við því að Alþingi gefi of víðtæka heimild út af tiltölulega litlu erindi eins og það er kynnt hér.