Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:40:06 (4122)

1999-02-26 11:40:06# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:40]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisverð samlíking að líkja hafalmenningum og veiðum íslenskra sjómanna á hafi úti við vatnalögin vegna þess að ákvæði um sameign þjóðarinnar var sett inn til þess að styrkja þá sýn að það er landsmanna allra að sækja fisk í sjó.

Ef hv. þm. vill reyna að breyta vatnalögunum og snúa við á þeirri braut þá er ég viss um að hann mun fá stuðning víðar frá heldur en úr hans eigin flokki. En ég er ansi hrædd um að þá komi nú krafa um bætur og annað slíkt upp eftir að þetta er búið að vera skýr einkaeign síðan 1923. Það verða dálítið miklar bætur, held ég, sem ríkið þarf þá að reiða fram.

En ef hv. þm. telur að raunhæft sé að gera það þá er ég viss um að hann mun fá stuðning víða til þess.