Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:43:01 (4139)

1999-02-26 12:43:01# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Um leið og forseti Alþingis mælti fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp nefndi hann nýjar tillögur um starfshætti þingsins. Ég held að mjög mikilvægt sé að slíkar tillögur fylgi breytingum á þingsköpum ef okkur tekst að gera þær breytingar nú fyrir þinglok og með því væri vinnulag í þinginu fært í nútímalegra horf. Hægt er að segja að það sé gert fjölskylduvænna og það hljómar vel að gera þær breytingar sem forseti nefndi enda er markmið með slíkum breytingum og breytingum á þingsköpunum að sjá betur fyrir umfang þingstarfa á hverjum tíma og auðvelda skipulag þess.

Í ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar kom fram að e.t.v. gagnaði lítið að gera breytingar á vinnubrögðum Alþingis ef ekki fylgdu með breytingar í starfsháttum ríkisstjórnar og átti hann þar fyrst og fremst við fjárlagagerð og störf fjárln. Við hljótum auðvitað að ætlast til þess að ef hér verður til agað Alþingi, þá verðum við ekki með í farteskinu óagaða ríkisstjórn. Þetta hlýtur að þurfa og eiga að fylgjast að.

Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að gera breytingar á þingsköpunum á þessu vori. Ég hef verið þátttakandi í þessari vinnu í gegnum árin. Allar breytingar sem við höfum þegar gert hafa reynst vera til góðs. Enginn vill taka skrefin til baka, ekki einu sinni þeir sem voru með aðra sýn á þeim málum og þeim breytingum sem gerðar voru á hverjum tíma. Hins vegar erum við seint á ferð með frv. og mér finnst það miður því að það væri e.t.v. það sem mundi gera það að verkum að við næðum ekki mikilvægum breytingum fram.

Mér finnst einnig skipta máli og þingmenn verða að horfa á það að forseti leggur áherslu á að ekki sé endilega krafan að gera allar þær breytingar sem hér er gerð tillaga um. Þetta er mikilvægt mál og ég legg áherslu á að ná verður samstöðu um breytingar.

[12:45]

Fyrst og fremst erum við að þessu til að gera þingið liprara og eins og ég sagði áður, gera skipulag þess betra. Við erum líka að þessu til að styrkja Alþingi og forseti fylgdi því vel úr hlaði. Ég er fylgjandi mjög mörgu af því sem er að finna í frv. en ég hef líka athugasemdir eða efasemdir um einstaka þætti. T.d. varðandi þau atriði sem eru til þess fallin að styrkja Alþingi, þá vil ég skoða hvort mál eigi að ganga beint til nefndar áður en umræður hefjast. Ef störf þingsins og ríkisstjórnarinnar verða ekki jafnöguð og við erum kannski að leggja upp með hér fyndist mér ekki gott ef menn væru komnir langleiðina við að vinna frv. í nefnd áður en það kæmi til 1. umr. á Alþingi. Mér finnst það vond röð við meðferð máls og ég held það mundi mjög fljótlega eyðileggja 1. umr. um mál. Ég tel að 1. umr. á Alþingi sé mikilvæg. Þetta vil ég skoða.

Það segir enn fremur um það að styrkja Alþingi, að Alþingi verði vettvangur forsrh. til að tilkynna mikilvægar ákvarðanir ríkisstjórnar, ,,að jafnaði`` segir að vísu, og að þær ákvarðanir verði tilkynntar á Alþingi fremur en í fjölmiðlum. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Síðast í gær var hér hörð umræða um það að ríkisstjórnin hefur ákveðið að undirrita ekki Kyoto-bókunina og að slík ákvörðun var kynnt í fjölmiðlum og að alþingismenn heyrðu um svo mikilvæga ákvörðun ríkisstjórnar í fjölmiðlum. Þeir töldu að ekki hefði aðeins átt að tilkynna hana á Alþingi, heldur hefði átt að hafa samráð um hana við utanrmn. Þær breytingar sem verið er að fást við hér eru mikilvægar.

Varðandi það að þingið fái rýmri tíma til að fjalla um mál og að brottfallsregla geti miðast við lok kjörtímbils þá minni ég á þingmannamálin. Þingmönnum hefur oft þótt það kostur að endurflytja mál sín sem ekki ná fram að ganga vegna þess að stór þáttur í flutningi þingmannamála er að ýta við, benda á og pressa á aðgerðir af hálfu stjórnarmeirihluta og ríkisvalds. Oftar en ekki hafa endurflutt þingmannamál orðið til þess að í fyllingu tímans kemur stjórnarfrv. þótt þingmannamálið hafi verið frá stjórnarandstöðunni. Ef slík þingmannamál fara til nefndar og fást ekki afgreidd þaðan og húka þar kannski út kjörtímabilið þá fellur þessi möguleiki brott. Ég veit að til eru aðrir kostir, t.d. að stjórnarfrv. geti lifað af meira en eitt þing. En þessi mál þarf að skoða. Þennan möguleika þarf að skoða með tilliti til eðlis þingmannamálanna.

Ég vil sérstaklega taka fram að mér finnst mikilvægt að tvískipta 3. umr. um lagafrv. Það er vönduð málsmeðferð. En sú tillaga byggir á styttingu ræðutíma og því að allar umræður, 1., 2., og 3., fái markaða umræðu en ekki ótakmarkaðan ræðutíma eins og gildir núna. Síðast þegar við breyttum þingsköpunum hvað þetta varðar, þá var 1. umr. sett í afmarkaðan tíma og nú eru hugmyndir uppi um að ræðutími verði ekki ótakmarkaður við 2. og 3. umr.

Mér finnst koma til greina að við tökum bara aðra umræðuna að sinni. Margir munu leggjast gegn þessu ákvæði um að binda alla umræðu við 1., 2., og 3., þó svo að 3. umr. sé skipt og það er hugsanlegt að við verðum að taka þessa breytingu í áföngum. Við höfum reynsluna af því að binda tíma við 1. umr. Menn mundu þá venjast því hvernig er að hafa bundinn tíma við 2. eða 3. umr. Ég held að eftirleikurinn yrði léttari, a.m.k. held ég við ættum fremur að gera það en falla frá því að taka skref í þessa átt. Til að ná þeim skrefum að setja tímamörk á umræður held ég líka að við verðum að gefa lengri tíma en fimm mínútur í þá ræðu sem má endurtaka oft. Ég vil taka þátt í að skoða þetta í nefnd og reyndar alla þætti þingskapafrv. En ég nefni þetta sem dæmi um ákvæði sem ég veit að verður ágreiningur um og við verðum að vera lipur í.

Mér finnst mjög mikilvægt að stokka upp nefndaskipan en ég held að það þurfi að skoða betur. Umræður eru uppi um að skipta nefndunum á annan hátt, t.d. dóms- og menntamálanefndinni og við eigum að skoða það. Ég vek líka athygli á því að í umræðunni um utanríkismál í gær voru nefnd bæði EES-málin og Evrópusambandstilskipanirnar. Þeim þarf að koma í farveg og þörf er á sérstakri nefnd fyrir þessi mál. Við þurfum líka að skoða hvort það verður sérstök nefnd eða ein af þeim sem við skipum.

Mér finnst afar mikilvægt að tekinn er inn alveg nýr þáttur í umræðurnar. Við þekkjum utandagskrárumræður, styttri umræðurnar sem hafa fengið góða hefð hjá okkur og lengri umræðurnar sem hafa verið meira og meira víkjandi. Það hefur vantað í okkar þingsköp að þingmenn gætu beðið um umræðu um tiltekið, afmarkað málefni þótt svo það falli ekki undir hefðbundna utandagskrárumræðu. Nú er það komið inn í 33. gr. og ég spái því að það eigi eftir að vera kannski það sem við notum mest í framtíðinni þegar við viljum ræða mál sem okkur finnst mikilvægt að komi á dagskrá án þess að fyrir liggi þingmál, þáltill., fyrirspurn eða frv. og án þess að það sé endilega mál sem hefur verið brýnt miðað við fréttaflutning eða annað. Þetta er mjög mikilvæg breyting.

Herra forseti. Ég held ég hafi farið yfir helstu meginatriði sem ég vil drepa á við 1. umr. Mér finnst líka mjög mikilvægt að við tökum fyrir betra skipulag á nefndunum, fyrir utan það að fækka þeim og ég held að við eigum að skoða það í alvöru að byrja á því tilnefna varamenn í nefndir. Ef nefndirnar eiga að verða svona öflugar, við fækkum þeim og hver þingmaður er fyrst og fremst í einni nefnd þá held ég að hreinlega eigi að taka það upp að skipaður verði varamaður til að starf nefndarinnar verði liprara og að menn taki það af mikilli alvöru að fjarvistir þýði það að einhver komi í staðinn. Mér finnst líka að sú heimild sem verið hefur til staðar um að vera með opna nefndarfundi hafi ekki verið notuð. Ég reyndi að ná því fram í umræðu, og hef reyndar tekið það fyrir í fleiri en eitt skipti í umræðu um fíkniefnamál, að þær nefndir þingsins sem fíkniefnamálin varða ættu að standa fyrir opnum fundi og eins konar heyrslu þeirra aðila sem ríkisstjórnin hefur sett til starfa í fíkniefnamálum. Ég gekk svo langt fyrir tveimur árum að skrifa formlegt bréf til bæði félmn. og heilbr.- og trn. Ekki fékkst ákvörðun um að halda slíka heyrslu, ef ég leyfi mér að þýða þetta hrátt. Ég held að mjög mikilvægt hefði verið fyrir þingið allt að heyra og fara saman yfir það hvað er að gerast í fíkniefnamálum, hvaða skref er verið að taka af hálfu ríkisstjórnar og hvað þeim sem málið varðar úti í samfélaginu finnst mikilvægt að gerist og hafa þá milligöngu um það. Ég ætla að gera enn eina tilraun fyrir þinglok að vita hvort hugsanlegt sé að ná samstöðu um slíkan sameiginlegan fund þeirra nefnda sem um það mál fjalla vegna þess að við eigum að vera upplýst um það nú í lok kjörtímabils hvernig gengið hefur með áform ríkisstjórnarinnar um fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Ég ætla að gera enn eina tilraun. Hér er ákvæði um hugsanlega opna nefndafundi og ég styð það. Við eigum að gera meira af þessu.

Varðandi orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar um fjárlagadæmið. Auðvitað á að flytja verkefni til fastanefndanna, meira en þessa safnliði. Fastanefndirnar eiga að taka á móti þeim heimsóknum sem hafa verið hjá fjárln. ef menn telja að halda eigi áfram með heimsóknir, fastanefndirnar eiga að taka afmarkaða þætti og fjármálanefndin á að taka hina stóru þætti tekjuhliðar og útgjalda.

Hér er mjög margt mjög sjálfsagt, t.d. eins og það að frv. gangi til 2. umr. án atkvæðagreiðslu og um rýmri heimildir til að stytta atkvæðagreiðslur við 2. umr. Þetta eru sjálfsagðir hlutir. Það er mjög mikið af sjálfsögðum hlutum í frv. eins og þessar fyrirspurnir, þessar munnlegu skýrslur frá ráðherrum.

Herra forseti. Ég er staðráðin í því fyrst og fremst að drepa á helstu þætti sem mér finnst að verði að skoða. Þetta mál fer til nefndar. Þar verður reynt að ná samstöðu um breytingar. Ég mun vinna að því að samstaða náist og mun ekki lengja mál mitt við 1. umr. Takk fyrir.