Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:56:31 (4140)

1999-02-26 12:56:31# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:56]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Þetta frv. er að mörgu leyti til bóta, að sumu leyti til mikilla bóta. Þó eru þar ýmis atriði sem orka tvímælis. Er þar einkum um að ræða tvo meginþætti. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir uppstokkun á nefndakerfi Alþingis. Þannig er gert ráð fyrir því, og það er veigamesta breytingin, að færa undir eina nefnd, atvinnumálanefnd, iðnaðar- og orkumál, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, verslunar- viðskipta- og bankamál og byggðamál. Nánast allt sem snertir atvinnulíf þjóðarinnar er sett undir eina allsherjarnefnd, atvinnumálanefnd. Ég held að þetta gæti verið til góðs að mörgu leyti. Þetta gæti verið til góðs að því leyti að þetta gæti orðið til þess að klippa á þann naflastreng sem iðulega er á milli framkvæmdarvaldsins, milli ráðuneytis og ráðherra, og nefndarinnar. Iðulega er meiri hluti nefnda eins konar framlenging á ráðherravaldinu og ef verksvið nefndarinnar, atvinnumálanefndar, yrði víðtækara á þann hátt sem hér er lagt til þá held ég þetta gæti orðið til þess að stuðla að annarri og annars konar umfjöllun. Hins vegar yrði verksviðið náttúrlega mjög umfangsmikið og spurning hvort ein nefnd gæti annað öllum þessum málaflokkum. Þetta eru atriði sem þarf að fara rækilega í saumana á og ég teldi óráðlegt að fara í þessar breytingar án þess að þau mál hefðu verið rækilega skoðuð.

Hin stóra breytingin sem ráð er fyrir gert í þessu lagafrv. er stytting á ræðutíma. Nú er það svo að við 2. og 3. umr. í Alþingi hafa þingmenn ótakmarkaðan ræðutíma en samkvæmt þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru settar á þá hömlur. Þannig er gert ráð fyrir að við 2. umr. geti þingmenn talað í 15 mín. í fyrsta skipti, í fimm mín. í annað sinn og síðan oftar í fimm mín. hverju sinni. Sama gildir síðan um 3. umr. Með öðrum orðum, þarna er verið að takmarka ræðutíma í þinginu.

[13:00]

Ég er því fylgjandi að menn stilli máli sínu í hóf og umræða sé stutt. Ég held að það sé til góðs og umræðan geti verið málefnaleg og innihaldsrík þótt menn flytji stuttar ræður. Ég held að þegar á heildina er litið séu umræður tiltölulega stuttar. Nokkur mál á hverju þingi skera sig úr þar sem umræður eru langar og stundum mjög langar. Ef við lítum á þau mál sem mest hefur verið talað í á liðnum missirum og árum, hvaða mál skyldu það vera? Það eru lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar tók Alþingi ákvörðun um að færa í einn grunn allar heilbrigðisupplýsingar um íslensku þjóðina og gera að söluvöru á erlendri grundu. Ákveðið var að fela einu fyrirtæki einkarétt á heilsufarsupplýsingum Íslendinga til þess að höndla með við erlend og innlend fyrirtæki. Um þetta var mikið fjallað á Alþingi og menn gerðust nokkuð langorðir.

Menn töluðu líka lengi um húsnæðismál. Þegar ríkisstjórnin ákvað að taka húsnæðiskerfi þjóðarinnar og félagslega þátt þess og rústa því. Um þetta var mikið talað á Alþingi. Menn fluttu langar og miklar ræður um málið. Menn ræddu líka mikið um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lagabálk sem umturnaði réttindum og skyldum sem starfsmenn ríkisins búa við. Um þetta töluðu menn lengi. Menn ræddu líka lengi um frv. ríkisstjórnarinnar um vinnulöggjöf. Það þrengdi að launafólki og samtökum þess, verkalýðshreyfingunni, setti henni skorður sem hún var ósátt við. Menn ræddu þetta lengi á Alþingi.

Menn töluðu líka lengi um svonefnd hálendisfrumvörp og menn hefðu e.t.v. þurft að tala miklu lengur um frv. sem varð að lögum sl. vor og færði eigendum að landi eignarhald á öllum auðlindum þjóðarinnar inn að miðju jarðar, öllu heitu vatni sem finnast kann í jörðu. Um þetta var samþykktur lagabálkur sl. vor og að sjálfsögðu voru langar umræður um það frv.

Þannig mætti áfram telja. Menn töluðu lengi um frv. um lífeyrismál. Hér í þinginu kom fram frv. um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna sem hefði stórlega skert þau réttindi. Mikil umræða var um málið sem síðan var dregið til baka og kom fram í breyttri mynd. Þegar grannt er skoðað, þá eru það stóru átakamálin sem snerta þjóðfélag okkar sem hafa valdið mikilli, ítarlegri og oft langri umræðu hér á þinginu. En þarf hún að vera þetta löng? Þurfa menn að tala klukkustundum saman um sama málið? Helst vildi maður að hægt væri að koma í veg fyrir slíkt en staðreyndin er sú að þessi ítarlega umfjöllun hefur haft ýmsa kosti í för með sér. Í ítarlegu máli hafa rökin komið fram og þeim verið komið á framfæri við þjóðina. Þjóðin hefur fengið að vita að verið væri fjalla um mikilvæg mál á Alþingi. Þetta hefur orðið til þess að örva umræðuna í þjóðfélaginu og orðið til þess að þing og þjóð hafa kallast á. Hefur þetta orðið til ills? Ég segi nei. Þetta hefur orðið til góðs.

Flestum frumvarpanna sem ég nefndi var breytt í meðförum þingsins. Breytingarnar voru gerðar vegna þrýstings, innan þings sem utan í öllum þessum tilvikum. Í sumum þessara tilvika hefði átt að vísa þessum málum frá og leggja til hliðar eða gera róttækari breytingar. Þegar allt kemur til alls erum við í reynd að tala um örfáa daga þingsins þar sem umræður hafa orðið langar, um brýn hagsmunamál þjóðarinnar. Ég er sannfærður um það að þetta hafi hvorki orðið málefnunum né þinginu til ills.

Í raun eru það ekki reglurnar sem hafa verið slæmar heldur málatilbúnaður þeirra sem reitt hafa þingmálin fram. Það er við hann að sakast og þá sem þar standa að baki. Það hefur yfirleitt verið ríkisstjórnin. Hún hefur reynt að þröngva málum í gegnum þingið, oft í mikilli ósátt við þingmenn. Ég hvet til, áður en ráðist yrði í breytingar af þessu tagi, að skoða gaumgæfilega kost og löst á málinu.

Ég tel að í frv. sé að finna ýmsar breytingar sem gætu orðið til góðs. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. forseta Alþingis, Ólafs G. Einarssonar, að flutningsmenn væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um breytingar á frv. og vildu taka tillit til sjónarmiða sem reyndust á rökum reist. Ég hef líka tekið eftir því að þeir talsmenn þingflokka sem tjáð hafa sig um þetta mál á opinberum vettvangi hafa talið mikilvægt að um þær breytingar sem ráðist yrði í ríkti sátt. Þess vegna skulum við láta reyna á, í nefndinni sem tekur málið til umfjöllunar, hvort unnt er að skapa víðtæka sátt um þær breytingar sem hér eru lagðar til. Að öðrum kosti teldi ég hyggilegt að láta málið bíða til næsta þings en fá jafnframt rækilega umfjöllun í millitíðinni.