Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:25:30 (4179)

1999-03-01 15:25:30# 123. lþ. 74.1 fundur 304#B undirritun Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Svarið við spurningunni um hvort eitthvað hafi breyst er kannski fyrst það að á Buenos Aires-þinginu síðasta haust kom það helst upp að mönnum fyndist að ekki hefði verið nóg að gert og ekki hefði verið nógu mikið hægt að bregðast við þeim vanda sem uppi er og árangurinn eftir Kyoto-þingið fram að Buenos Aires-þinginu ekki verið nægur.

Afstaða mín til málsins í heild er óbreytt frá því sem kemur fram í tilvitnaðri grein. Ég tel mikilvægt að þjóðir heims nái saman um samninginn sem er ekki enn þá undirritaður eins og allir vita, og þær sem hafa þó staðfest Kyoto-bókunina hafa sumar gert það með ákveðnum fyrirvörum um að þær muni ekki staðfesta samninginn fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ferli íslenskra stjórnvalda í málinu er nokkuð þekkt, bæði þær yfirlýsingar og þau markmið sem við fórum með á Kyoto-þingið og síðan aftur á Buenos Aires-fundinn um að ákveðið tillit yrði tekið til sérstakra íslenskra aðstæðna, það er líka óbreytt. Við höfum haldið áfram við að reyna að fylgja því markmiði eftir. Við fengum inn í bókunina sjálfa á Kyoto-þinginu ákvæði sem ég tel að sé mjög mikilvægt til að geta unnið úr málinu áfram þannig að Íslendingar geti endanlega orðið aðilar að samningnum. Þótt það næðist ekki fram á Buenos Aires-fundinum fékk það þó góðar undirtektir þar og enn er haldið áfram að vinna að því verkefni á vettvangi samningsins eða bókunarinnar á þeim þingum sem við sækjum og á fundum með einstökum þjóðum sem við höfum reynt að vinna stuðning hjá og skýra sjónarmið okkar út fyrir.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar liggur fyrir og hefur þegar verið rædd hér, hæstv. forseti, og út af fyrir sig hef ég ekki neinu við það að bæta sem þar hefur komið fram.