Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 17:27:48 (4246)

1999-03-02 17:27:48# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst sú ábending góð að í rauninni væri viturlegra að ný ríkisstjórn eða nýtt þing markaði sér stefnu í þessum málum. Kannski var skýringin á því að sú áætlun sem var samþykkt árið 1994 gekk ekki eftir, að skipt var um ríkisstjórn. Ég veit það ekki. Ekkert okkar veit það, einfaldlega vegna þess að það var ekki skoðað. Það var ekki skoðað, herra forseti, af hverju sú áætlun gekk svo illa eftir og raun ber vitni. Þó voru markmiðin ekki ýkja stórbrotin eða þess eðlis að ekki væri hægt að standa við þau. Það reyndist bara ekki pólitískur vilji fyrir því þegar til kastanna kom. Þess vegna held ég að sú ábending sé góð að það væri að mörgu leyti betra að nýtt þing ákvæði stefnuna. Við ættum að skoða þá tillögu vegna þess að ég óttast, herra forseti, að örlög þessarar tillögu verði ekki svo ólík örlögum hinnar fyrri.

Það má hins vegar líka segja, herra forseti, ef hér kemur ríkisstjórn sem hefur metnað í þessum efnum, að ekkert væri auðveldara en að taka þessa tillögu upp, breyta henni og vinna síðan eftir henni. Það er auðvitað aðalatriðið vegna þess að við gefum lítið fyrir það að hér sé verið að samþykkja áætlanir sem síðan stendur ekki til að fylgja eftir. En ég vek athygli á því að þó svo að breytingar hafi orðið á ríkisstjórn frá árinu 1994 þegar fyrri áætlun var samþykkt, fór sami ráðherra með byggðamál. Sami ráðherra fór með byggðamál allan tímann, þannig að ef áhugi hefði verið fyrir hendi þá tel ég, herra forseti, að meira hefði getað gerst.