1999-03-03 18:26:41# 123. lþ. 77.13 fundur 508. mál: #A tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:26]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram fsp. um tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði. Fyrri spurning fsp. hljóðar svo:

,,Er heilbrigðisráðuneytið undir það búið að útiloka frá aðild að undirbúningi og framkvæmd við gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði alla þá starfandi lækna og aðra innan heilbrigðisstétta sem starfa við heilbrigðisstofnanir eða sjálfstætt og kunna að hafa bein eða óbein hagsmunatengsl við væntanlegan rekstrarleyfishafa gagnagrunnsins, sbr. lög nr. 139/1998?``

Heilbrrn. mun að sjálfsögðu í þessu máli sem öðrum gæta þess að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta taki ekki þátt í ákvörðunum sem varðað geta hagsmuni þeirra.

Svo sem þingmanninum er ljóst hefur ekki verið auglýst eftir umsóknum um rekstrarleyfi en það verður gert á næstu vikum. Undirbúningur málsins er í fullum gangi, bæði í ráðuneytinu og hjá landlæknisembættinu og verður þess að sjálfsögðu gætt að enginn taki þátt í ákvörðunum sem varðað geta hagsmuni þeirra.

Síðari spurning hv. þm. er svohljóðandi:

,,Mun ráðuneytið upplýsa almenning um hvaða læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafna að afhenda trúnaðarupplýsingar um sjúklinga sína í gagnagrunn á heilbrigðissviði þannig að sjúklingur viti fyrir fram hvers vænta megi í því efni (undanskilið er að sjúklingurinn geti sjálfur óskað skriflega eftir þátttöku í grunninum)?``

Svarið við því er að ekki hefur verið tekin ákvörðun um sérstaka kynningu á því hvaða heilbrigðisstofnanir eða heilbrigðisstarfsmenn gera ekki samning við rekstrarleyfishafa um þátttöku í gagnagrunni á heilbrigðissviði, enda má gera ráð fyrir að alllangur tími líði þar til á það reynir.