Útsendingar útvarps og sjónvarps

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:27:22 (4348)

1999-03-03 19:27:22# 123. lþ. 77.19 fundur 536. mál: #A útsendingar útvarps og sjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svarið sem mér fannst afar athyglisvert og þá sérstaklega það sem þar kom fram varðandi sendingar um gervitungl.

Í greinargerð útvarpsstjóra frá 1995 kom fram að óvíst væri hvenær og jafnvel hvort Íslendingar gætu notað þessa tækni til að þjónusta sjómenn. Nú kemur hins vegar fram að tæknilegur möguleiki sé á að dreifa dagskrá sjónvarpsins um gervitungl og talið að kostnaður við sendingar yrði 60--80 millj. á ári auk lítils háttar stofnkostnaðar. Jafnframt liggur fyrir að slíkar sendingar mundu nýtast RÚV til dreifingar innan lands þannig að einstöku bæir sem ná ekki sendingum RÚV í dag ættu að geta náð þeim.

Mér finnst þetta stórmerkilegar upplýsingar og þessar tölur um kostnað segja mér að stutt hljóti að vera í að þessar sendingar hefjist. Móttökuskilyrði sjónvarps eru afleit víðast hvar á miðunum og helst að þau séu sæmileg ef skip eru nálægt þéttbýlisstöðum, t.d. út af suðurströndinni, út af Vestfjörðum og víðar. Útvarpsskilyrðin eru hins vegar mjög góð eins og ég nefndi hér áðan. Síðast í gær hitti ég sjómann á loðnuskipi sem sagðist afskaplega ánægður með þá byltingu sem hefði orðið hjá þeim í aðstöðu til að fylgjast með útvarpi. Hann bað mig fyrir kveðjur til hæstv. menntmrh. og þakklæti fyrir þessar myndarlegu framkvæmdir.

Kostnaður við móttökubúnað um borð í skipunum er nokkur eins og hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. 2 millj. Mér skilst að hjá Norðmönnum ýmist borgi útgerðin þetta eða þá að sjómennirnir og útgerðin geri þetta í félagi. Þetta er hins vegar ekki tala sem ætti að þurfa að standa í mönnum. Það sem fram kom í svari hans segir mér að sendingar frá Gufuskálum og Eiðum séu ekki mjög raunhæfar. Það sem menn eiga auðvitað að horfa á eru þessir gervihnattamöguleikar.

Ég vil ítreka þakkir til hæstv. menntmrh. fyrir þetta svar og þann áhuga sem hann sýnir þessu máli. Mér sýnist augljóst að Ríkisútvarpið muni innan tíðar slá tvær flugur í einu höggi og tryggja að sjómenn og aðrir landsmenn sem búa við slæm móttökuskilyrði geti notið sendinga sjónvarps til jafns við aðra íbúa þessa lands.