Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 10:56:05 (4361)

1999-03-06 10:56:05# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[10:56]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. meiri hluta allshn. á þskj. 971 og 973 um frv. til laga um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.

Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um málið og fengið fjölda gesta á sinn fund vegna þessa og margar umsagnir um málið bárust til allshn.

Frumvarpið er samið af Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni, en þeir voru haustið 1996, ásamt Sigrúnu Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni, skipaðir í nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga. Skilaði nefndin áliti í tvennu lagi þar sem Sigrún skilaði minnihlutaáliti.

Fjöldi breytinga á skaðabótalögum eru lagðar til í frv. Meðal þeirra helstu má nefna að lagt er til að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verði notaður samfelldur margfeldisstuðull til 75 ára aldurs.

Þá verði við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða en ekki einungis þá sem nýta vinnugetu sína til að afla tekna.

Árslaun til ákvörðunar bóta miðist við meðalatvinnutekjur slasaða síðustu þrjú almanaksárin fyrir slys og tekin verði upp lágmarksviðmiðun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Hámark viðmiðunarlauna verði hins vegar óbreytt.

Reglum um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku verði breytt þannig að auk þeirra greiðslna sem nú dragast frá komi greiðslur frá almannatryggingum og hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði til frádráttar.

Þá verði bótaréttur 70 ára og eldri vegna varanlegrar örorku aukinn verulega.

Heimild til að ákveða álag á miskabætur verði rýmkuð auk þess sem fellt verði niður ákvæði um að bætur greiðist ekki nái miskastig ekki 5%. Þá breytist aldurstengd skerðing miskabóta þannig að hún hefst við 50 ára aldur og verður 1% á ári að 75 ára aldri en engin eftir það.

Veruleg breyting verði á reglum um örorkunefnd. Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sér sjálfir sérfræðilegra álitsgerða um örorku- og/eða miskamat en báðir aðilar hafi rétt til þess að skjóta slíkum álitsgerðum til örorkunefndar til endurmats. Örorkunefnd verði einungis matsaðili á fyrsta stigi þegar málsaðilar óska þess sameiginlega.

Þá er lagt til að ársvextir bóta fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón, missi fram færanda og varanlega örorku hækki úr 2 í 4,5%.

Loks er lagt til í frv. að heimild til ákvörðunar miskabóta skv. 26. gr. laganna verði rýmkuð. Verði t.d. heimilt að láta þann sem veldur líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Þá verði heimilt að gera þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.

[11:00]

Meðal þess sem rætt var ítarlega í nefndinni er sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu að bætur frá lífeyrissjóði og almannatryggingum dragist frá bótum vegna varanlegrar örorku. Ástæða hennar er sú að allt önnur sjónarmið eru uppi í frumvarpinu en í gildandi lögum hvað þetta varðar. Margföldunarstuðull frumvarpsins er annars eðlis en stuðull núgildandi laga og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Margfeldisstuðull núgildandi laga er hins vegar við það miðaður að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja aðila, t.d. almannatryggingum og vátryggingum. Í frumvarpinu er við það miðað að bætur skerðist ekki vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds en hins vegar komi bætur af félagslegum toga að fullu til frádráttar. Litið er svo á að bótaréttur frá lífeyrissjóði sé í senn af félagslegum toga og úrræði sem launþegi kostar sjálfur. Algengast er að vinnuveitandi greiði 60% iðgjalds til lífeyrissjóðs en launþegi 40%. Með hliðsjón af þessari skipan er lagt til í frumvarpinu að 60% bóta frá lífeyrissjóði komi til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku með sama hætti og aðrar félagslegar greiðslur. Meiri hlutinn leggur til að sömu reglur gildi um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns enda eðlilegt að hið sama gildi um þessar tvær tegundir bóta hvað þetta varðar. Verði því 60% af greiðslum frá lífeyrissjóði vegna tímabundins tekjutjóns dregin frá skaðabótum fyrir tímabundna örorku. Það skal tekið fram til skýringar að þess þarf að gæta þegar verðmæti örorkulífeyris er dregið frá bótum fyrir varanlega örorku að við útreikning bótanna eru þær lækkaðar um þriðjung vegna skattfrelsis og svokallaðs hagræðis af eingreiðslu. Örorkulífeyrir er hins vegar skattskyldur eins og launatekjur. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að skerða útreiknað eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris um þriðjung áður en dregið er frá. Því er lagt til í frumvarpinu að til frádráttar skaðabótum fyrir varanlega örorku komi 40% (þ.e. 2/3 af 60%) af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.

Í fjölmiðlaumfjöllun að undanförnu hefur komið fram gagnrýni á þá tillögu meiri hlutans að 60% af greiðslum vegna tímabundins atvinnutjóns skuli dregið frá bótum vegna tímabundinnar örorku og telja sumir að þar sé vegið að sjúkrasjóðum stéttarfélaganna. Þessi umræða er hins vegar á misskilningi byggð. Staðreynd málsins er sú að engar lagareglur eru um hvernig fjármunum sjúkrasjóða stéttarfélaganna skuli varið heldur setja félögin sjálf slíkar reglur. Þegar þær reglur eru skoðaðar kemur í ljós að réttur til bóta úr sjóðunum er almennt bundinn því skilyrði að annars konar bótaréttur sé ekki fyrir hendi.

Má sem dæmi nefna að sjúkrasjóður VR greiðir 80% meðallauna fyrir slys enda komi ekki til greiðslna vegna tímabundinnar örorku samkvæmt ábyrgðartryggingu fyrir sama tímabil. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þær aðstæður skapist ekki að hinn slasaði hafi af því beina fjárhagslega hagsmuni að veikindi hans vari sem lengst. Væri til að mynda ekki vænleg regla að hinn slasaði ætti bæði rétt á fullum skaðabótum fyrir launamissi og jafnframt greiðslum frá sjúkrasjóði sem næmi 80% af launum. Það mundi einfaldlega þýða að hinn slasaði hefði af því fjárhagslega hagsmuni að láta sér ekki batna. Ef þeir sem fara með sjúkrasjóðina teldu hins vegar að slík regla væri vænleg væri þeim sjálfum í lófa lagið að setja slíkar reglur.

Meðan málið var til meðferðar í nefndinni, nánar tiltekið í febrúar á þessu ári, féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem eitt ákvæði skaðabótalaga var talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um er að ræða ákvæði þar sem kveðið er á um að eftir að 60 ára aldri er náð lækki miskabætur tjónþola um 5% á ári næstu tíu árin en haldist síðan óbreyttar. Nefndin tók dóminn til sérstakrar skoðunar en niðurstaða meiri hlutans er sú að ekki séu efni til að láta hafa áhrif á afgreiðslu máls þessa. Í fyrsta lagi er aðeins um héraðsdóm að ræða og alls ekki víst að Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu. Þá er lagt til í frv. að skerðing þessi verði með öðrum hætti, byrji við 50 ára aldur og verði 1% á ári til 75 ára aldurs. Skerðingin verði því bæði minni og dreifist á lengri tíma. Er því alls ekki víst að dómurinn hefði komist að sömu niðurstöðu ef lögin væru með þeim hætti sem lagt er til í frv.

Við meðferð málsins í allshn. var nokkuð var rætt um 13. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að heimild til ákvörðunar miskabóta verði rýmkuð. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum frumvarpsins við umrædda grein. Þar kemur fram að við mat á fjárhæðum bóta skuli m.a. hafa í huga umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagsstöðu hans. Séu börn fórnarlömb kynferðisbrota beri að líta til þess hversu alvarlegar afleiðingar brots eru fyrir þau, svo og til eðlis verknaðarins, hve lengi misnotkun hafi staðið og hvort um misnotkun fjölskyldu- eða trúnaðartengsla sé að ræða. Leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á að slík tengsl milli brotamanns og brotaþola eiga ekki að leiða til lækkunar bóta.

Þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni lögðu höfundar frumvarpsins til endurskoðaðan margfeldisstuðul til útreiknings varanlegrar örorku. Við endurskoðunina var forsendum við gerð stuðulsins breytt þannig að atriðum sem hafa áhrif á starfslíkindi er sleppt fram að 67 ára aldri nema tekið er tillit til dánar- og örorkulíkinda á sama hátt og áður. Með þessu er horfið frá tillögu um fráhvarf frá hefðbundinni notkun starfslíkindaþáttarins sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sigurður Freyr Jónatansson tryggingastærðfræðingur endurreiknaði stuðulinn í samræmi við þessa breyttu forsendu í samvinnu við Bjarna Þórðarson tryggingastærðfræðing. Þá fóru þeir sameiginlega yfir aðra þætti stuðulsins að ósk nefndarinnar og staðreyndu réttmæti hans miðað við gefnar forsendur.

Að beiðni allshn. létu höfundar frumvarpsins stilla upp í töflu undirstuðlum sem mynda sameiginlega endurskoðaða margfeldisstuðulinn. Birtist taflan í fylgiskjali með nefndaráliti meiri hlutans. Leggur meiri hlutinn til að sú útgáfa margfeldisstuðulsins sem þar birtist verði tekin inn í frumvarpið.

Meiri hluti allshn. leggur til nokkra smærri breytingar:

Lagt er til að í stað orðsins ,,rúmliggjandi`` í 2. gr. frumvarpsins komi orðið rúmfastur. Í umræddri grein eru tvö orð, rúmliggjandi og rúmfastur, notuð í sömu merkingu. Gæti það valdið ruglingi og er því lagt til að einungis annað þeirra, rúmfastur, verði notað. Telja verður það hugtak heppilegra þar sem það lýsir betur því sem átt er við.

Þá er lagt er til að í stað orðanna ,,ekki veikur`` í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna komi orðið vinnufær. Í umræddum málslið segir að þegar sérstaklega standi á sé heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé ekki veikur. Í raun er þar átt við að greiða megi þjáningabætur þótt tjónþoli sé farinn að vinna. Bent hefur verið á að orðið veikur hefur tvenns konar merkingu sem vísi annars vegar til sjúkleika og hins vegar til óvinnufærni. Orðið veikur kemur tvisvar fyrir í 1. mgr. 3. gr. laganna og hefur í 1. málsl. merkinguna vanlíðan eða veikindi en í 2. málsl. merkinguna óvinnufær. Verður að telja óheppilegt að sama orðið hafi tvær mismunandi merkingar í sömu lagagrein og því er umrædd breyting á orðalagi lögð til. Ekki er um að ræða breytingu á innihaldi greinarinnar heldur er orðalagið einungis gert skýrara.

Þá leggur meiri hlutinn til að í stað orðanna ,,eftir að ekki er að vænta þess að tjónþoli nái frekari bata`` í 1. mgr. 5. gr. laganna komi orðin: þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Er sú breyting í samræmi við sams konar breytingar á lögunum sem lagðar eru til í 1., 2. og 3. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur einnig til að í stað orðanna ,,þegar honum er metin varanleg örorka`` í 1. efnismgr. 5. og 6. gr. frumvarpsins komi orðin: sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Þá komi í stað orðanna ,,þegar honum er metin örorka`` í 2. efnismgr. 5. gr. orðin: á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Með þessari breytingu verður skýrara að bætur vegna varanlegrar örorku reiknast frá þeim degi er tímabundinni örorku lýkur. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða.

Þá leggur meiri hlutinn til að á undan orðinu ,,gáleysi`` í 2. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins komi orðið stórfelldu en að sögn höfunda frumvarpsins féll umrætt orð fyrir mistök út úr texta frumvarpsins. Þá er tekið fram í athugasemd við greinina í frumvarpinu að stórfellt gáleysi þurfi til bótaskyldu í því tilviki sem 2. efnismgr. 13. gr. fjallar um.

Loks leggur meiri hlutinn leggur til að lögin taki gildi 1. maí nk. þar sem mikilvægt er að þær réttarbætur sem frv. felur í sér komi sem fyrst til framkvæmda.

Virðulegi forseti. Ég tel að um mjög mikilvægt mál sé að ræða sem feli í sér verulegar réttarbætur fyrir tjónþola og meiri hluti allshn. leggur að sjálfsögðu til að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Hjálmar Jónsson og Kristján Pálsson.