Brunatryggingar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:37:56 (4374)

1999-03-06 12:37:56# 123. lþ. 79.10 fundur 388. mál: #A brunatryggingar# (lækkun brunabótamats van- eða ónýttra húseigna o.fl.) frv. 34/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:37]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. um breyting á lögum um brunatryggingar.

Öll nefndin skrifar undir álitið. Málið var sent til umsagnar og menn komu til fundar við nefndina eins og fram kemur í nál.

Nefndin gerir tillögu um örlitlar breytingar. Í fyrsta lagi er tæknileg breyting við 1. gr. Um er að ræða orðalagsbreytingu.

Síðan eru gerðar þrjár tillögur til breytinga á 2. gr. Veigamesta breytingin og sú sem máli skiptir kemur fram í c-lið brtt., þar sem í stað orðanna ,,ekki í notkun`` komi annað orðalag, þ.e.: ,,hafa lítt eða ekki verið í notkun``. Þetta skiptir máli við mat á eignum, þ.e. hvaða eignir heimilt verður að meta niður þannig að gjaldstofn til greiðslu gjalda lækki.