Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 15:04:10 (4394)

1999-03-06 15:04:10# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr hvort við þrír undirritaðir þingmenn ... (TIO: Ekki Steingrímur J. Sigfússon.) Herra forseti. Ég bið forláts á því að ég ruglaði þarna saman tveimur mikilvægum þungavigtarmönnum af Norðurl. e. sem að vísu hafa talsvert fjarskyldar skoðanir á því máli sem hér er um að ræða. Hv. þm. spurði beinlínis um afstöðu þingmanna Samfylkingarinnar, og þá þessara þriggja, til tillögunnar sem fyrir liggur. Afstaða einstakra þingmanna mun auðvitað koma fram í atkvæðagreiðslunni sem verður væntanlega á mánudaginn. Það er alveg ljóst hver mín afstaða er. Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu.

Ég vek athygli á því að það sem komið hefur í veg fyrir að þeir flokkar sem núna standa að Samfylkingunni hafi runnið saman áður er að mínum dómi fyrst og fremst mismunandi afstaða til utanríkismála. Nú hefur ýmislegt það gerst á alþjóðavettvangi sem hefur leitt til þess að miklu auðveldara er fyrir flokkana að renna ekki í þremur kvíslum heldur einum og sama farvegi. Það breytir því hins vegar ekki, herra forseti, að innan Samfylkingarinnar er mismunandi afstaða til þessa tiltekna máls. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni að einn þingmanna Samfylkingarinnar er flm. að tillögunni og ég á afskaplega bágt með að trúa að annað gerist en að hv. þingmaður greiði atkvæði með þeirri tillögu.

Eins og ég gat ærlega um áðan í minni framsögu þá er það þannig að innan Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir. En ég ítreka, herra forseti, að innan þingmannaliðs ríkisstjórnarinnar eru líka skiptar skoðanir til þessa máls eins og ég vænti að komi fram í atkvæðagreiðsluþegar að henni kemur.