Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:18:44 (4437)

1999-03-08 13:18:44# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég harma það að sjónarmið hæstv. forsrh. vógu ekki þyngra en raun ber vitni í sambandi við höfuðborgina og það kjördæmi sem hæstv. forsrh. er 1. þm. fyrir. Ég hef í raun ekki skilið þau rök sem þar voru færð fram en þau munu vera þau aðallega að þingmannatalan í kjördæmunum ætti að verða sem jöfnust, það væri meginkeppikefli. Ég gef mjög lítið fyrir þá röksemd að þingmannahópur í hverju kjördæmi landsins sé álíka fjölmennur, en það mun hafa verið meginröksemdin fyrir uppskiptingu Reykjavíkur. Ég tel í rauninni að það sjónarmið hafi ráðið furðu miklu í starfi og frumtillögu nefndarinnar, sem menn síðan komust ekki út úr, að halda þessum hópum svona nálægt því jafnstórum, sem leiddi til þessara geysilega stóru landsbyggðarkjördæma sem fara langt út fyrir þann ramma sem líklegt er að þingmenn miðað við þá starfshætti sem þróast hafa og fólkið á landsbyggðinni a.m.k. vill að haldnir séu í heiðri, að þeir hafi samband við sinn þingmann. Þessi stóru kjördæmi gera það illkleift ef ekki ómögulegt að halda uppi starfsháttum af þeim toga.

Það er þetta sem ég gagnrýni og sem ég óttast að verði ekki til velfarnaðar. Fyrir utan það að hér er gengið þvert á þær hefðir sem skapast hafa í sambandi við samstarf sveitarfélaga og er ekki séð fyrir því hvað sú röskun mun hafa í för með sér.

En það er auðvitað jafnljóst, eins og hæstv. forsrh. mælti hér áðan, að auðvitað var ekki við því að búast að menn fengju einhverja séróskir lögfestar í þessum efnum og ég hafði heldur ekki reiknað með því.