Útflutningsráð Íslands

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:27:09 (4441)

1999-03-08 13:27:09# 123. lþ. 80.29 fundur 591. mál: #A Útflutningsráð Íslands# frv. 47/1999, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:27]

Frsm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Útflutningsráð. Frv. er þess efnis að 2. mgr. 7. gr. laganna falli brott og að lög þessi öðlist þegar gildi.

Gerð var sú breyting á lögum um Útflutningsráð í lok síðasta árs að markaðsgjaldið í þeirri mynd sem það var áður féll niður en upp var tekið nýtt markaðsgjald sem hlutfall af tryggingagjaldsstofni. Á ferðinni hefur verið ákveðinn misskilningur eða umræður um hvort þessi breyting hafi verið ófullkomin þannig að innheimta þyrfti tvöfalt markaðsgjald á árinu 1999. Með samþykkt þessa frv. væri verið að taka af öll tvímæli í því máli þannig að einungis yrði einföld innheimta markaðsgjalda á þessu ári eins og til stóð.

Virðulegi forseti. Ekki er gert ráð fyrir því að frv. gangi til nefndar heldur beint til 2. umr.