Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:51:10 (4487)

1999-03-09 10:51:10# 123. lþ. 82.92 fundur 334#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Skömmu fyrir síðustu nefndadagasyrpuna voru þingmannamál sett á dagskrá í einn dag. Einn dagur fyrir stjórnarliða, annar dagur fyrir stjórnarandstæðinga. Ekki tókst að ljúka þeirri dagskrá daginn sem stjórnarandstæðingar voru með sín þingmál. Mörg þeirra mála komu fram snemma á þessum vetri. Þau liggja enn og ekki hefur verið boðið upp á að flytja þau mál sem ekki náðist að tala fyrir á þeim eina degi. Í gær, þremur dögum fyrir áformuð þinglok, voru átta mál til 1. umr. Það voru allt stjórnarfrumvörp þrátt fyrir að nefndastarfi væri í raun lokið. Átta mál, herra forseti, af þeim 31 sem eru á dagskrá í dag eru mál til atkvæðagreiðslu til að koma þeim til nefndar eða síðari umræðu.

Það er fullkomlega óviðunandi að ef stjórnarandstaðan óskar eftir að sérstakt mál komi á dagskrá, eins og það sem formaður Alþfl. óskaði eftir að kæmi á dagskrá í dag, sé fullkomlega litið fram hjá því á sama tíma og fyrir liggur að við erum að ganga til atkvæða um átta mál sem koma frá ríkisstjórninni. Enn á ný hljótum við að staldra við það hvort Alþingi ráði virkilega ekki ferð sinni heldur sé sífellt að taka fyrir mál stjórnarinnar og ekkert annað.