Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:26:59 (4574)

1999-03-09 21:26:59# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:26]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það datt alveg yfir mig að heyra hugsanir hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar mótaðar í orð hér áðan. Hvernig telur hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson að málið standi hjá hæstv. ríkisstjórn? Hvernig er undirbúningi fyrir málið háttað að hans mati? Hvenær telur hv. þm. að tími verði kominn til að hefja veiðar? Það er vart svara vert að þingmenn af Vestfjörðum og Vesturlandi ræði þessi mál út frá snöpum eftir atkvæðum.

Herra forseti. Ég hef tekið þátt í umræðum um hvalveiðar þau ár sem ég hef setið á þingi ávallt á sama veg, burt séð frá því hvort kosningar eru í nánd eða ekki. Ég neita því slíkum ásökunum. Ef hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson hefur hlustað á ræðu mína eða ræður, þá hef ég alltaf lýst þeim áhættuþáttum sem fylgja því að hefja hvalveiðar. Alltaf. Og hvað heldur hv. þm. að umræddir atkvæðaveiðimenn tapi mörgum atkvæðum með því að standa að málinu og fylgja því eftir eins og gert hefur verið miðað við það sem ég sagði í ræðu minni?