Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:11:43 (4589)

1999-03-09 22:11:43# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum hæstv. forseta um að reyna að stytta mál mitt eins og kostur er. Það þarf þó ekki að vera neitt undrunarefni að hv. þingmenn sýni þessu máli talsverðan áhuga því ekki þarf annað en að lesa dagblöðin eða hlusta á ljósvakamiðlana síðustu vikur til þess að finna þann titring, þau yfirboð og þann kosningaskjálfta sem hlaupinn er í ýmsa þingmenn stjórnarliða núna tveimur mánuðum fyrir kosningar. Það er í því ljósi sem ég sagði í andsvari áðan að það væri þakkarvert að ferskir vindar kæmu inn á þingið með persónu varaþingmannsins hv. Jónasar Hallgrímssonar og segðu mönnum hér hispurslaust hvernig þessi kaup hefðu verið gerð á eyrinni og hver veruleiki þeirra væri. Það er þakkarefni.

Til að halda hinum formlegu þáttum til haga þá erum við, eins og segir í nál., að fjalla um till. til þál. um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. En auðvitað er það þannig í nál. og brtt. sem hér er lagt til að afgreidd verði, að við erum að afgreiða allt annað mál þannig að við veltum því eðlilega dálítið fyrir okkur í samgn. hvernig best mætti koma þessu fyrir þingtæknilega. Í raun og sanni erum við ekki að taka út þá þáltill. sem nefndin hafði til umfjöllunar, þ.e. að grafa göng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, heldur leggjum við þvert á móti til að Alþingi álykti að fela samgrh. að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi.

Ég skrifa undir þetta. Ég skrifaði undir vegna þess að mér þótti það skynsamlegt, skynsamlegt til þess að stöðva hina hröðu yfirreið stjórnarþingmanna og ráðherra um héruð þar sem þeir lofa öllu fögru hverjum sem heyra vill, nánast hverju sem hver vill heyra um jarðgöng og annað gotterí. Ég vildi koma þessu í vitrænan farveg.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að það verk sem lagt er til að farið verði í átti náttúrlega að leggja upp með við gerð langtímavegáætlunar sem við afgreiddum fyrr á þessum vetri. En stjórnarliðar með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar heyktust á því verki. Ég rifja það upp, herra forseti, að fram fór allítarleg umræða um þau mál einmitt í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar og síðan langtímavegáætlunar hér fyrr á vetrinum.

[22:15]

Það er mér í fersku minni að hæstv. samgrh. hljóp mjög hratt undan þegar eftir því var gengið hvaða afstöðu ríkisstjórnin og stjórnarliðar í heild, hefðu til jarðgangagerðar á næstu árum. Hann sagði að það væri seinni tíma mál. Það hefur sennilega verið sá tími sem hann valdi á fundi á Siglufirði um daginn til að lofa göngum milli Norðurlands vestra og síns eigin kjördæmis, Norðurlands eystra. A.m.k. lýsti hann engri klárri skoðun á því hvernig forgangsraða bæri né heldur hvort yfirleitt ætti að fara í jarðgangagerð á næstu 12 árum. Það var sú yfirlýsing sem eftir lá þegar Alþingi afgreiddi langtímavegáætlun, um margt dálítið myndarlega áætlun, til næstu 12 ára. Ég segi um margt dálítið myndarlega áætlun því sumt í henni, þótt hún væri án jarðganga, bar þess keim að vonarglampi væri í augum stjórnarliða og menn væru í dálitlum loforðasmíðum í þessum efnum. En látum það vera. Í þessari tillögu er með öðrum orðum horfið frá og raunverulega verið að vísa frá formlega fyrirliggjandi tillögu hv. þm. Sjálfstfl. á Austfjörðum, Egils Jónssonar og Arnbjargar Sveinsdóttur. Málið er fært í allt allt annan farveg og raunverulega sett í hendur næstu ríkisstjórnar hvernig haga beri forgangsröðun verkefna á sviði jarðgangagerðar. Það mun verða dómur sögunnar sem eftir situr að þessi ríkisstjórn sem hefur haft 40 þingmenn af 63 hafi ekki náð að ljúka því verki sínu að standa við gefin fyrirheit fyrr á þessum áratug um það hvernig bæri að forgangsraða í jarðgangagerð á þessu landi þegar Vestfjarðagöngum lyki. Ég vil taka af öll tvímæli um það og hef flett því upp og hlýtt mönnum yfir sem í því samkomulagi tóku þátt að öllum er ljóst að Austurland skyldi verða næst í röðinni hvað jarðgöng varðar þegar Vestfjarðagöngum væri lokið. Það hefur því verið skýrt í mínum huga.

En meginkjarni málsins, herra forseti, er að á næstseinasta degi þingsins, tveimur mánuðum fyrir kosningar, þá er það útspil ríkisstjórnarflokkanna --- að vísu með góðum stuðningi okkar stjórnarandstæðinga, það þurfti til --- að lagt er til að samgrh. framtíðarinnar verði falið að skoða málið, að gerð verði úttekt á kostum og síðan verði forgangsraðað. Það er satt að segja fagnaðarefni að það þarf auðvitað nýja ríkisstjórn til að ljúka því verki sem stjórnarliðum 40 talsins tókst ekki að ljúka á yfirstandandi kjörtímabili. Þó að ég viti vel að með þessari þáltill. sem hér er raunverulega verið að vísa frá hafi fylgt góður hugur, þá er það eftirtektarvert, herra forseti að hér skuli koma fram þingmannatillaga á síðasta vetri kjörtímabilsins um að það eigi að bora í gegnum fjöll á Austurlandi. Það er eftirtektarvert. Og að annar flm., hv. þm. Egill Jónsson, sem var hér á þingi 1991 og hefur verið oddviti sjálfstæðismanna á Austurlandi um langt árabil, hefur talið það málinu til framgangs að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir færi fram með þessa þáltill. sem 1. flm. á síðasta vetri kjörtímabilsins. Hún kemur þá fram með, eins og hv. þm. Jónas Hallgrímsson drap á, í raun alveg nýja útfærslu. Að vísu ekki óþekkta heldur útfærslu sem nefnd hefur verið, en engu að síður nýja útfærslu frá því sem samþykkt var fyrir fjórum árum 1994 eins og hér var rakið mjög rækilega. Út af fyrir sig ætla ég ekki að hafa neinar sérstakar skoðanir á því. En maður sá það vissulega á umsögnum um þáltill. sem hér er lagt til að verði að forminu til vísað frá eða inn í þessa heildarskoðun, að uppi voru ýmis álitamál í fjórðungnum um það hvort skynsamlegt væri að víkja frá fyrri stefnu í þessum efnum og vera e.t.v. með fjóra eða fimm möguleika á því hvar og hvernig skyldi bora í fjórðungnum.

Ýmsir hafa haldið því fram að þetta geri það að verkum að Austfirðingar verði kannski ekki tilbúnir til að vera sammála um ein göng og í því ljósi verði það Norðlendingar sem stingi sér fram fyrir. Þetta eru röksemdir sem hafa heyrst í þessum efnum. Ég held það sé alveg ástæða til að taka þær með fullri alvöru. Ég undirstrika, herra forseti, að ég leyfi mér vissulega að hafa á þessu skoðanir þótt ég komi úr allt öðru kjördæmi og af öðru svæði, héðan af suðvesturhorninu. En það geri ég vegna þess að ég hef jafnmikinn áhuga og þingmenn dreifbýlisins á því að menn taki myndarleg skref í jarðgangagerð. Við sjáum af fenginni reynslu að jarðgöng milli byggðakjarna til þess annars vegar að rjúfa vetrareinangrun sem við þekkjum kannski hvað best, en einnig ef það á við til þess að stytta vegalengdir --- stundum fer þetta saman --- er ekkert sérmál dreifbýlisins. Hér er um þjóðarhagsmuni að ræða. Ég tel að í þeim tilfellum sem í jarðgangagerð hefur verið ráðist hafi verið um þjóðhagslega hagkvæmar aðgerðir að ræða sem við eigum ekki að setja í útideyfu, ekki að hafa áhyggjur af eða óttast að taka afstöðu til eins og hæstv. samgrh. fyrr á þessu kjörtímabili þegar hann drap málinu á dreif og vildi ekki taka þetta inn í langtímavegáætlun. Og það sem meira er, ekki er aðeins um hæstv. samgrh. að ræða í þeim efnum, heldur stjórnarliða, samflokksmenn hans í þingflokki Sjálfstfl. sem auðvitað blessuðu yfir þessa langtímavegáætlun og vegáætlun hina styttri líka og samþykktu það væntanlega í sínu þingflokksherbergi að langtímavegáætlun yrði afgreidd án jarðganga. Auðvitað eru þeir framsóknarmenn ekki heldur saklausir af þessum glæp. Þeir samþykktu það á sama hátt í sínu þingflokksherbergi, væntanlega samkvæmt tillögu varaforsætisherrans, 1. þm. Austurl., að drepa málinu líka á dreif og nefna ekki jarðgöng einu aukateknu orði í langtímavegáætlun sem samþykkt var fyrr á þessum vetri. Þetta er kjarni málsins og veruleiki hlutanna. Þessu þurfa hv. þm. Framsfl. og Sjálfstfl. að svara sínum kjósendum, annars vegar á Austurlandi, hins vegar á Norðurlandi og raunar um allt land. Það þýðir ekkert að mæta hér örfáum vikum fyrir kosningar og henda inn einhverjum þingmannafrv. og ætla sér að ná sér þannig í fjarvistarsönnun. Það er kjánalegt.

Ég hrasaði um enn aðra tillögu frá hv. þm. Austurl. Það er eins og að hlaupið hafi í þá svakalegur mórall. Hér er tillaga um könnun á hagkvæmni virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði. Þessu rignir hér inn, eins og menn séu að vakna núna loksins, rétt fyrir kosningar, deginum áður en þingið fer heim, væntanlega til þess að geta farið á fundina fyrir austan og sagt: ,,Ég nefndi þetta þó.``

Kjósendur sjá í gegnum svona sýndarmennsku. Það gefur augaleið og þegar Samfylkingin mætir til leiks --- hún er náttúrlega mætt til leiks --- þarna fyrir austan og hringinn í kringum landið, þá þýðir svona sjónarspil og einfalt grín úr gömlum myndum ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta eru gamaldags vinnubrögð. Ég hélt satt að segja að menn reyndu ekki svona ódýr trikk og ódýrar meldingar nú rétt um aldarhvörf. (Gripið fram í: Þú varst í framboði fyrir austan.) Já, einmitt. Menn reyndu þetta einmitt þá. Það er mér í fersku minni. Ég hélt satt að segja að eitthvað hefði breyst á þessum árum sem frá eru liðin, frá 1983. En allt virðist sitja fast í þessum efnum hjá stjórnarflokkunum sem hafa haft mikið fylgi á Austurlandi, allt of mikið. En nú verður væntanlega stór breyting á í komandi kosningum. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það sem vekur sérstaka athygli ef það er ástæðan að stjórnarþingmenn hverju sinni eru ósáttir við stjórnarstefnuna í samgöngumálum --- maður hefur fullan skilning á því --- þá er ósköp eðlilegt að við afgreiðslu vegáætlunar eða langtímavegáætlunar komi sú óánægja fram. Jafnvel eru þess þekkt dæmi að það gerist með breytingartillögum eða að menn ræði það út og nái samkomulagi í þingflokkum stjórnarflokkanna um að gera umtalsverðar breytingar í þessum efnum. En það er ekki mjög trúverðugt þegar þessir sömu hv. þm. hafa stutt þessa ríkisstjórn í blíðu og stríðu og hangið á græna takkanum í hverju málinu á fætur öðru, herra forseti. Þeir hafa hangið á græna takkanum en allt í einu rétt fyrir kosningar gerir samviskan vart við sig og það rignir hér inn ódýrum yfirboðum og sýndartillögum um þetta og hitt. Þetta er ekki mjög trúverðugt. Enn er veruleikinn sá að stjórnarflokkarnir eru á fljúgandi ferð undan sjálfum sér. Það er ekki einungis að þeir noti hvert einasta tækifæri til að leggja hver til annars, gagnrýna hver annan, heldur eru þeir líka að átta sig á því að þeirra eigin flokkur hefur ekki gert nákvæmlega það sem æskilegt hefði verið og eru því að lappa upp á sjálfan sig með yfirboðum og tillögum af þessum toga.

Auðvitað hefur það aldrei gerst að borað hafi verið í gegnum fjöll vegna þess að þingmannatill. hafi komið fram. Ég minnist þess ekki --- menn geta þá leiðrétt mig í þeim efnum --- að einhverjum hafi dottið í hug síðast á kjörtímabilinu 1987 að bora í gegnum fjöll fyrir vestan og það hafi verið ástæða þess að farið var í milljarðaframkvæmdir þar, eða í Ólafsfjarðarmúlann. Ég get nefnt þessi stóru verkefni. Auðvitað gerist þetta ekki þannig. Það vitum við. Auðvitað gerist það þannig að pólitísk stefnumörkun styrkrar og öflugrar ríkisstjórnar gerir slíka drauma að veruleika. Þess vegna átti maður von á því að þessi ,,samhenta ríkisstjórn`` sem hefur hælt sér að því að ekki gengi hnífurinn á milli stjórnarflokkanna, mundi ná saman um það a.m.k. hvaða verkefni yrðu næst í röðinni. Nei, þeir náðu ekki saman um það. Þaðan af síður ná þeir samkomulagi um hvenær eigi að hefja næsta verkefni. Í þriðja lagi eru engir peningar fráteknir í langtímavegáætlun til að ráðast í þetta stóra verkefni sem kemur til með að kosta nokkra milljarða kr., jafnvel fimm til sex.

Auðvitað var það eftirtektarvert þegar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir var spurð um það í sjónvarpi hvernig þetta kæmi allt heim og saman, þ.e. að þegar hæstv. ráðherrann hennar væri að lofa göngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, þá væri hún að tala um göng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. að þá var svar hennar efnislega þannig: ,,Er ekki hægt að fara í hvort tveggja, bara?`` Það var prýðilegt svar. Ég veit til þess að þeir í Reykjavík eru líka að tengja á milli. Má ekki bæta því við? Ég veit hugmyndir eru um að grafa niður Reykjanesbrautina í Hafnarfirði. Má ekki bæta því við líka? Svo voru menn að nefna Vaðlaheiðina. Munar nokkuð um að bæta þessu öllu á listann? Þetta er ekki trúverðugt. Það er heldur ekki trúverðugt þegar hv. þm. Skagfirðinga heldur því fram að ríkisstjórnin ætli þrátt fyrir allt að bora fyrst milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en svo kemur hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir flokksfélagi hans fyrir austan og segir eitthvað allt annað. Hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. varaforsætisráðherrann eiga svo eftir að syngja einn sönginn fyrir austan og hæstv. félmrh. á eftir að syngja eitthvert allt annað lag á Norðurl. v. Þeir eru þegar byrjaðir á því.

Þetta er fullkomlega ótrúverðugt. Þess vegna er þrátt fyrir allt kannski best, herra forseti, úr því sem komið er eftir ráðleysi ríkisstjórnarinnar og stjórnarþingmannanna --- sérstaklega er áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málinu áberandi. Það blasir við öllum. Tómir stólarnir segja allt um það --- að við stjórnarandstæðingar skerum þá niður úr snörunni og setjum málið á byrjunarreit, látum væntanlegan samgrh. í nýrri ríkisstjórn fara ofan í málið þannig að ný ríkisstjórn undir forustu Samfylkingarinnar geti sett í fullan gang, til að mynda seint síðar á þessu ári, þannig að við getum hafist handa og efndir fylgi þessum orðum öllum, að þetta verði meira en blaður og bull út og suður, fram og til baka.