Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:04:17 (4684)

1999-03-10 12:04:17# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, HG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka félögum mínum í hv. umhvn. fyrir undirtektir við málið eins og fram kemur á nál. á þskj. 1100. Með þeirri breytingu sem þar kemur fram er Alþingi að álykta um að stefna á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á næsta ári, sérstaklega er tilgreint að umhvrh. tilkynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.

Hér er um að ræða stefnumarkandi samþykkt af þingsins hálfu. Enda þótt hún taki ekki til fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu eins og upphafleg tillaga gerði ráð fyrir tel ég að með þessari samþykkt sé verið að leggja út á braut sem ég vænti að verði til þess að áður en langt um líður verði tekin stærri skref með því að lýsa önnur svæði svipað og mörkuð er tillaga um í þáltill., 16. máli þessa þings, en það getur auðvitað ráðið miklu að vel takist til um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs eins og verið er að stefna að með þeirri tillögu sem hér er lögð fyrir þingið.

Ég held að það hafi mikla kosti að taka stærstu jökla landsins sérstaklega og gera þá að kjarna í þjóðgörðum og síðan er úrvinnsluatriði hvernig um semst að tengja við þá aðliggjandi svæði. Eins og hv. frsm. nefndarinnar og formaður umhvn. sagði áðan og vakin er athygli á í nál. tengjast Vatnajökli nú þegar stór verndarsvæði sem lægju þá að væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði og gætu raunar verið hluti hans ef um það semst. Síðan er það álitaefni, úrvinnsluatriði, að bæta þar við fleiri svæðum en ekkert verður gert í þessum efnum nema með samkomulagi jafnt byggðamegin sem óbyggðamegin. Þar er verulegt verk fyrir höndum sem tengist m.a. úrvinnslu hálendismálanna á grundvelli markaðrar stefnu hér með samþykkt frumvarpa þar að lútandi, lögfestingar á síðasta þingi, m.a. laga um þjóðlendur.

Að einstökum verndarsvæðum sem tengjast Vatnajökli og nefnd eru í nál. umhvn. er friðland á Lónsöræfum sem er mjög stórt svæði austan við jökulinn og tengist jöklinum. Kringilsárrani norðan jökuls, Eldborgarraðir eða Lakagígar sem eru oft nefndir en hitt er mál heimamanna. Eldborgarraðir eru náttúruvætti sem tengjast því einnig og þá síðast en ekki síst Skaftafellsþjóðgarður sem hefur einnig innan sinna marka væna sneið af Vatnajökli og yrði auðvitað tengdur þeim þjóðgarði þó að hann gæti haldið áfram stöðu sinni sem sjálfstæður þjóðgarður. Það er hreint útfærsluatriði.

Ég held að í sambandi við þetta mál hljóti menn að hugsa til þeirrar brýnu nauðsynjar sem er á vatnsvernd, verndun á grunnvatni landsins, þeirrar miklu auðlindar sem verður vafalaust eftirsóttari og þýðingarmeiri eftir því sem árin líða því að ferskvatn er að verða ein af þeim auðlindum jarðar sem mjög skortir víða. Það skiptir gífurlega miklu máli að við höldum um þá auðlind þannig að hreinleiki hennar sé treystur og tryggður og jöklarnir eru bakfiskurinn í vatnaverndinni og því þarf að gæta að þaðan komi ekki mengun af mannavöldum.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp hugmyndirnar um aðra þjóðgarða annað en nefna það eins og Hofsjökulsþjóðgarð sem hugmynd var sett fram um í upphaflegri tillögu en Þjórsárver tengjast Hofsjökli eins og þekkt er og eru friðland. Langjökull með umhverfi þar sem er einnig að finna friðlýst svæði með jöðrum jökulsins og síðast en ekki síst Mýrdalsjökulsþjóðgarður sem er fjórða hugmyndin og sem unnt væri að tengja friðland að fjallabaki norðan jökuls og Heklusvæðinu eins og hugmyndir eru settar fram um í upphaflegri tillögu.

Ég vil geta þess, virðulegur forseti, að á meðan á vinnslu málsins stóð bárust til mín hugmyndir fyrir hreina tilviljun í raun um að það gæti verið kjörið að tengja friðlýsingu Vatnajökuls við alþjóðlegt átak í vernd fjalla árið 2002. Það ár hefur verið tilnefnt af Sameinuðu þjóðunum sem ár fjalla og undir fjalllendi heyra jöklar og önnur slík fyrirbæri. Það vill svo til að á árunum 1953 og 1954 dvaldist ungur maður í þjóðgarðinum í Skaftafelli með öðrum námsmönnum frá Bretlandi við rannsóknir á svæðinu og á jöklinum. Hann er breskur að uppruna, fæddur í Bretlandi en gerðist síðan prófessor í Boulder í Colorado og veitti þar forstöðu Instar-stofnuninni og átti hlut í útgáfu á tímariti um Alpine and Arctic Research og er heimsþekktur vísindamaður. Hann er nú búsettur í Ottawa í Kanada og heitir Jack D. Ives. Hann starfar nú í hópi innan Sameinuðu þjóðanna við að undirbúa ár fjalla. Einmitt þessa dagana er að hefjast í Róm vinnufundur á vegum þessa hóps og þar verður rætt um þessi mál í alþjóðlegu samhengi. Auðvitað væri mjög ánægjulegt ef það gæti gerst að Ísland legði fram þetta stóra svæði sem ákvörðun um verndun inn í þetta samhengi, ár fjalla, og kafla XIII í Dagskrá 21 sem fjallar um verndun fjalllenda.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, virðulegur forseti, en ég ítreka þakkir mínar til formanns umhvn. og allra í nefndinni fyrir það að standa að afgreiðslu málsins með þessum hætti og vona að það verði til farsældar fyrir umhverfisvernd í landinu og til að lyfta þessu stórmerkilega svæði, Vatnajökli, í hugum jafnt landsmanna sem á alþjóðavísu.