Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:13:06 (4685)

1999-03-10 12:13:06# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:13]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þau orð sem féllu til nefndarinnar og formanns frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hans um sérstaka stöðu Vatnajökuls, ekki aðeins í hugum okkar Íslendinga heldur líka í hugum erlendra manna og í alþjóðlegu samhengi.

Ég minni á að með því að gera Vatnajökul að þjóðgarði erum við að feta svipaða slóð og annars staðar hefur verið gert í heiminum. Við skulum muna að stórir hlutar Grænlandsjökuls er þjóðgarður sem nýtur sérstakrar verndar. Ég minni einnig á að Suðurskautslandið og jökull þess nýtur einnig sérstakrar verndar hvað varðar rannsóknir, nýtingu jarðefna og alla umferð. Tvímælalaust er hægt að sækja á þessar slóðir hugmyndir sem gætu nýst við þá vinnu sem er fram undan í því að gera Vatnajökul að þjóðgarði.

Vatnajökull er ekki aðeins stórbrotinn og stórfenglegur í hugum okkar landsmanna. Hann er að sjálfsögðu líka vettvangur ferðaþjónustu og tekjuöflunar, hann er vettvangur útivistarmanna og allt þetta þarf að fella saman. Það er því tímabært að í þetta sé ráðist þannig að allir þessir hagsmunir og öll þessi sjónarmið fái notið sín í góðu samhengi og sátt.