Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:56:21 (4698)

1999-03-10 12:56:21# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. má með engu móti misskilja eitt eða neitt í því sem ég er að segja. Ég stend algjörlega heils hugar að baki þessarar tillögu. Málið er einfaldlega að ég tel að hann sé grátt leikinn. Ég tel að tillagan sem hv. þm. lagði fram upphaflega styðjist við það góð rök --- þá vísa ég til tillagna að skipulagi miðhálendisins --- og sé svo vel undirbyggð að hún hefði leyst margvísleg vandamál. Hún hefði meira að segja komið til móts við sjónarmið eins og þau sem ég hef varðandi stjórnsýslu miðhálendisins sem eru önnur en hv. þm. hefur. En í tillögunni hjá honum felst ákveðin nálgun að málamiðlun. Það var fegurðin sem ég sá í þessu líka, þ.e. að hún leysti margvísleg vandamál sem hér hafa verið uppi og átakalínur sem hafa verið mjög skýrar um þetta tiltekna mál hverfa með þessari tillögu. Það var fegurðin í henni fyrir utan allt annað.

Ég styð tillöguna alveg heils hugar. En mér rennur svolítið til rifja, m.a. vegna þess að hv. þm. hefur lýst því svo skilmerkilega hér hversu litlir þröskuldar og múrar eru er á vegi þess að hrinda verkinu í framkvæmd, að hv. umhvn. skyldi ekki hafa stigið skrefi lengra. Ég hef lýst skoðun minni á því hver ástæðan er. Hún er einfaldlega sú að það er hv. þm. sem er tillögumaður en ekki umhvrh. eða einhver úr stjórnarliðinu. Þannig er það því miður. Þetta er hin ógeðfellda hlið stjórnmálanna. Ég gæti, eins og ég sagði hérna áðan, rifjað upp a.m.k. tvö dálítið sterk dæmi þar sem hv. þm. hefur komið að málum og fengið samþykkta hluti en ekki uppskorið eins og eðlilegt hefði verið.

Ég ætla ekki að fara út í það, herra forseti, en lýsi því bara yfir að ég tel að þetta mál hafi a.m.k. komið umræðu af stað. Og tillagan er, eins og hv. þm. sagði, kannski ísbrjótur. Klárt er alla vega að viðhorfin til umhverfismála eru að gjörbreytast og munu verða gjörbreytt að komandi kjörtímabili liðnu, til þessara mála sem og annarra.