Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:43:28 (4733)

1999-03-10 17:43:28# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. ,,Glymur hæst í tómri tunnu``, segir máltækið. Ég átta mig ekki almennilega á því hvað býr á bak við fullyrðingar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar hann segir að hér rekist hvað á annars horn. Hv. þm. hefur trúlega ekki kynnt sér nægjanlega vel skipulagslög og hvernig skipulag fer fram hjá sveitarfélögunum. Það eru a.m.k. þrjár gerðir skipulaga sem unnið er með hjá sveitarfélögunum. (Gripið fram í.) Hv. þm. ætti þá kannski frekar að rifja upp hvernig þetta var gert á sínum tíma.

Það er til svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Öll þessi stig eru misjafnlega nákvæm. Allt sem fram kemur í svæðisskipulagi þarf að taka tillit til í aðalskipulagi. Þess sem er í aðalskipulagi þarf að taka tillit til í svæðisskipulagi. Þannig gengur þetta skref fyrir skref. Ef hv. þm. veit þetta ekki er tími til kominn að hann viti það. Allt í því sem ég sagði rímar, nákvæmlega allt.

Hv. þm. fullyrðir að útivistarsamtök og náttúruverndarsamtök fái ekki að koma að borðinu. Það er rangt. Þeir fá svo sannarlega að koma að þessu borði en ég viðurkenni að þeir hafa ekki allir sama rétt, t.d. ekki atkvæðisrétt. Það er ekki neinn þriðja flokks aðili sem er með málfrelsi og tillögurétt við borð svæðisskipulagsnefndarinnar. Það er sko alls ekki þriðja flokks. Það er í raun allt sem þessir aðilar þurfa á að halda. Spurningin er hvort þessir aðilar hafi nokkurn tímann þurft á atkvæðisrétti að halda, eins og Útvistarsamtökin hafa.