Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 18:16:54 (4739)

1999-03-10 18:16:54# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[18:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni er skemmst frá því að segja að við þingmenn Samfylkingarinnar erum í grundvallaratriðum á móti því kerfi sem hér hefur verið komið upp. Við teljum að ríkisstjórninni hafi mistekist í öllum aðalatriðum varðandi málefni miðhálendisins og þá gildir einu hvort talað er um skipulag þess, stjórnsýslu eða nýtingu. Þá er ég að vísa til þeirra deilna sem hafa staðið um fyrirhugaðar virkjanir sem ákveðnir ráðherrar innan ríkisstjórnarinnar hafa barist mjög harkalega fyrir. Í öllum þessum atriðum teljum við að ríkisstjórninni hafi mistekist.

Varðandi skipulagsmálin er ljóst að þær ógöngur, sem þetta mál hefur ratað í að okkar áliti, eiga rætur sínar að rekja aftur til síðasta þings. Þá sköpuðust miklar deilur um frv. til sveitastjórnarlaga. Eins og hv. þm. muna var bæði í 1. gr. þess frv. og í bráðabirðaákvæði gert ráð fyrir að miðhálendið yrði sneitt upp í sérstakar ræmur og skipt upp milli sveitarfélaganna. Fyrir þessu, herra forseti, tel ég að engin rök hafi legið. Miðhálendið hefur í augum þjóðarinnar öldum saman verið eins konar sameign. Miðhálendið var raunar einskismannseign, það var enginn sem nýtti það og nánast enginn sem fór um það ef frá eru skildar þær þjóðleiðir sem lágu milli landsvæða. Þetta sér maður til að mynda birtast í kortum sem fyrstu kortagerðarmenn Íslendinga gerðu á 16. og 17. öld. Ekki voru sýnd nein kennileiti á miðhálendinu, leiðir yfir það voru ekki einu sinni sýndar og þar var ekki að finna helstu örnefni sem við þekkjum í dag eins og Sprengisandur eða önnur slík. Með öðrum orðum, miðhálendið var einskismannsland, enginn þekkti það og enginn nýtti það.

Það var ekki fyrr en á þessari öld sem menn fóru að nýta það í þeim skilningi sem við þekkjum og skiljum í dag, þ.e. menn notuðu það til upprekstrar og til beitar. En það er ekki fyrr en á allra síðustu áratugum sem hægt er að halda því fram að menn hafi farið að leggja leið sína í ríkum mæli um miðhálendið og nýta það til ferðaþjónustu.

Þess vegna er það mjög umhendis, svo ekki sé meira sagt, að halda því fram að einhver sérstök rök hafi legið því til grundvallar að skipta miðhálendinu upp, eins og ríkisstjórnin beitti sér fyrir, í fjölmargar litlar ræmur. Ég vísa líka til þess, herra forseti, að þegar deilur hafa risið um eignarrétt á miðhálendinu og nýtingarrétt þá hefur það í fleiri en einu tilviki orðið niðurstaða Hæstaréttar að upprekstrarréttur, beitarréttur og nytjaréttur sem tengist beit búsmala, hefur ekki skapað eignarrétt. Aftur og aftur hefur þetta orðið niðurstaða Hæstaréttar, og raunar rétt til þess að halda öllu til haga, þá hefur það líka orðið niðurstaða Hæstaréttar --- og ég vísa til dóms sem féll út af Landmannaafrétti --- að það væri vissulega í valdi Alþingis að ráðstafa með sérstakri lagasetningu bæði nýtingar- og eignarrétti.

Það var auðvitað það sem við jafnaðarmenn töldum, að ríkisstjórnin væri að fara að gera þegar hún lagði fram prýðilegt frv. um þjóðlendur. Það var það sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson kallaði svo fallega ,,síðasta atlagan að landnámi Íslands``. Og hann átti við að með því væru landsmenn loksins að kasta eign sinni á allt landið. Í orðum hans lá sá skilningur að óbyggðirnar, miðhálendið, hefði verið einskismannseign. Það er þess vegna sem hann orðaði það þannig að við værum að ljúka landnáminu. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur þó að ég hefði legið lengi yfir því.

Í þessu fólst að verið var að ganga frá því að þjóðin ætti miðhálendið. Þá gerist það skyndilega í lok þeirrar atlögu, þ.e. að ljúka landnáminu, að hér er lagt fram frv. sem tekur þessa nýfengnu eign í rauninni af landsmönnum. Það er gert með því að miðhálendinu er skipt upp á milli allra sveitarfélaganna í landinu sem að því liggja. Um leið er þeim fært vald til stjórnsýslunnar, fært hvers kyns vald samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi um sveitarfélög og réttindi þeirra. Það þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að verið var að taka miðhálendið frá okkur með nákvæmlega sama hætti og búið er að taka frá okkur fiskimiðin. Samsvörunin er þessi:

Til eru lög um stjórnkerfi fiskveiða þar sem segir í 1. gr. að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Síðan er örfámennum hópi færður rétturinn til að nýta þessi fiskimið. Með öðrum orðum, eignarrétturinn sem okkur er færður samkvæmt lögunum er einskis virði vegna þess að nýtingarrétturinn verður að einokunarrétti í hendi tiltölulega fámenns hóps.

Hið sama gerist með miðhálendið. Í lögum um þjóðlendur er sagt að það land sem enginn getur sannað beinan einkaeignarrétt á sé eign þjóðarinnar. En um leið og búið er að samþykkja þau lög er svo að segja í sama mánuðinum samþykkt önnur lög sem segja:

Þrátt fyrir að þjóðin eigi þetta land þá fær hún ekki að ráða því. Yfirráðin eru færð í hendur 44 sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Í þessum sveitarfélögum er að finna 4% íslensku þjóðarinnar. Með öðrum orðum. Dæmið er nákvæmlega hið sama varðandi miðhálendið og varðandi fiskimiðin. Lögin segja: Þjóðin á þetta sem sameign en önnur lög gera það að verkum að sameignin er ógild og ráðstöfunarrétturinn, hinn raunverulegi nytjaréttur er færður í hendur óskaplega fámenns minni hluta.

Þetta er rangt, herra forseti. Þetta felur í sér ójafnræði.

Hæstv. umhvrh. hefur reynt að bæta fyrir þetta með því að sett verði upp sérstök nefnd sem eigi að fara með skipulagið á miðhálendinu. En hvernig sem stjórnarmeirihlutinn hefur reynt að koma að því máli hefur honum ekki einu sinni tekist að eyða því innbyrðis ójafnræði sem er að finna í hinum upphaflegu drögum, sem var nú líkt við að handsprengju hefði verið varpað inn í umræðuna um sveitarstjórnarlögin í fyrra. Enda var það svo að þó að hæstv. umhvrh. ætlaði að fá þau lög í gegn í fyrra var það Sjálfstfl. sem stóð í lappirnar og sagði: Nei, hingað og ekki lengra.

Nú kemur þetta mál aftur fyrir og það er litlu betra. Það er að vísu búið að koma því þannig fyrir að hægt er að segja að allir eigi aðild að stjórn á skipulagsgerð og skipulagsvinnu miðhálendisins, þ.e. sérhvert kjördæmi á fulltrúa. Það er a.m.k. búið að útrýma því sem var í hinu fyrra frv. sem kom hingað á síðasta þingi, þegar mælt var fyrir um að sveitarfélög eins og Reykjavík, Reykjanes, Vestfirðir og raunar heil kjördæmi ættu ekki rétt til að koma að þeirri vinnu vegna þess að þau eru ekki aðilar að miðhálendinu. Fjöldamörg smærri sveitarfélög og stór sveitarfélög, eins og Akureyri, og margir smáir hreppar áttu ekki aðild að því. En búið er að skjóta loku fyrir þetta með þessu fyrirkomulagi, ég er sammála því. En það breytir því ekki að lýðræðinu er ekkert hjálpað.

Hvers vegna er það þannig að langstærsti hluti þjóðarinnar, sem býr í tveimur þéttbýlustu kjördæmum landsins, Reykjavík og Reykjanesi, hefur einungis tvo fulltrúa, þ.e. hvort kjördæmi hefur einn fulltrúa. Hvað búa margir á þessu svæði? Ætli það séu ekki 67--69% þjóðarinnar? Og það hefur tvo fulltrúa.

Miðhálendið er sameign okkar allra og það eru ekki síst Reykvíkingar og Reyknesingar, þ.e. íbúar þéttbýlisins, sem nýta þetta bæði til útivistar og líka í atvinnuskyni, þ.e. sem standa fyrir ferðaþjónustu, sem í dag er farin að skipta verulega miklu máli fyrir þjóðarbúið.

Ég er þeirrar skoðunar að ef menn ætla sér að láta lýðræðið ráða þá hefði verið best að fara þá leið að láta hið háa Alþingi véla um þetta mál, láta Alþingi skipa sérstaka nefnd sem færi með stjórnsýsluna. Sú skoðun mín byggist ekki á einhverri hugdettu. Sérstök stjórnskipuð nefnd komst að þessari niðurstöðu í tíð ríkisstjórnar, sem m.a. flokkur núv. hæstv. umhvrh. átti aðild að. Þetta var nefnd með aðild fulltrúa allra flokka sem vann þetta mál og skilaði skýrslu, ef ég man rétt, í kringum árið 1990.

Þar var einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að best væri að fara þá leið að gera miðhálendið að einni stjórnsýslueiningu og skipa stjórn yfir það sem væri kjörin af Alþingi. Með því að fara þá leið er lýðræðinu fullnægt. Þá er það tryggt að í gegnum það fulltrúalýðræði sem birtist á hinu háa Alþingi hefur sérhver þegn landsins sömu aðkomu að málinu í gegnum þá fulltrúa sem tilnefndir eru af hans flokki á Alþingi Íslendinga. Þetta er lýðræði. Þetta er fulltrúalýðræðið eins og við þekkjum, fulltrúalýðræði, sem er einn af hornsteinum þess lýðræðis sem við köllum hið íslenska lýðræði. Þessu var hins vegar hrundið.

Eitt af því sem mér þykir raunar merkilegt þegar ég skoða þetta mál eins og það liggur fyrir í dag er að m.a. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur ásamt þingflokki sínum lýst fylgi við þær tillögur sem hér liggja fyrir. Og það er alveg ljóst að verulega skilur á milli þingflokks Samfylkingarinnar annars vegar og þingflokks óháðra hins vegar í þessu máli. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur t.d. við 1. umr. þessa máls lýst sérstökum stuðningi við það nefndarfyrirkomulag sem ég hef hér verið að ræða um. Hún að vísu tók undir að æskilegt væri að fleiri kæmu að því, en hún sagði líka að hún gerði það ekki að frágangssök, sem mér þykir afskaplega miður.

En ég nefni sérstaklega hv. þm. Hjörleif Guttormsson hér til sögunnar vegna þess að hann átti sæti í hinni stjórnskipuðu nefnd sem ég drap á áðan. Sú nefnd skilaði skýrslu þar sem tekið var afdráttarlaust af skarið með að heppilegasta formið til að stýra miðhálendinu, stjórnsýslu þess og skipulagsvinnu, væri að Alþingi færi þá leið að kjósa sérstaka stjórn.

Maður veltir fyrir sér: Hvernig stendur á því að þingmenn óháðra hafa skipt um skoðun? Hvernig stendur á því að sá þeirra sem hefur verið atkvæðamestur í þeirri vinnu sem kemur að náttúruvernd og reyndar skipulagi miðhálendisins lætur sig reka með straumi stjórnarinnar í þessu máli? Ég á erfitt með að skilja það, herra forseti.

Sú röksemdafærsla sem birtist áðan í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar var ekki sannfærandi. Á hverju byggðist hún? Hún byggðist á eftirfarandi fullyrðingu í andsvari hans við hv. þm. Magnús Árna Magnússon, einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, að sökum þeirra pólitísku viðhorfa sem ríkjandi væru á Alþingi væri ekki hægt að treysta Alþingi fyrir þessu máli.

Herra forseti. Ég vildi gjarnan lifa í kjörveröld allra veralda þar sem Alþingi lyti minni skoðun og allir á þingi væru sammála mér. En þannig er lífið ekki og þannig er lýðræðið ekki. Og það er þess vegna sem við höfum Alþingi til þess að pólitísk andstæð rök geti vegist á og meiri hlutinn fái að ráða. Það er hornsteinn og grundvöllur lýðræðisins. Það er ekki hægt að gera eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði, að segja að vegna þess að hin pólitíska samsetning og pólitísk viðhorf sem birtast á Alþingi Íslendinga séu óheppileg þá eigi ekki að láta Alþingi ráða málinu.

[18:30]

Sama mætti beita á öll önnur mál, herra forseti. Það mætti segja: Tökum skólamálin út fyrir sviga vegna þess að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason hefur skoðanir sem eru sannarlega ekki nægilega góðar, a.m.k. ekki að mati þeirrar hreyfingar sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi Íslendinga. Eigum við þá ekki bara að taka þau mál út fyrir sviga og láta einhvern annan en Alþingi ráða stefnunni? Að sjálfsögðu væri hægt að segja það en það er bara ekki lýðræði.

Nálgun hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að þessu og þessari niðurstöðu er því röng. Þetta taldi ég nauðsynlegt að koma með inn í umræðuna, herra forseti, vegna þess að það hefur verið fremur leiðinlegur plagsiður hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að gera þingmenn Samfylkingarinnar, sér í lagi þá sem koma úr Alþfl., að einhvers konar sektarlömbum í þessu máli. Niðurstaðan og staðreyndin er hins vegar sú að það erum við sem höfum ekki hvikað, við höfum fylgt þeirri stefnu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var upphaflega sammála árið 1990. Það er hann sem hefur látið reka undan straumi og frá upphaflegri skoðun sinni en það erum við sem höfum staðfastlega haldið þessu uppi. Það er nákvæmlega í þeim anda sem við höfum lagt fram skoðanir okkar á þessu.

Við teljum að málefnum miðhálendisins sé best komið í höndum Alþingis. Þess vegna teljum við að gera eigi sérstakt skipulag, sérstakt umhverfis- og auðlindaskipulag fyrir hálendið sem yrði á stjórnsýslustigi ríkisins, yrði unnið af stofnunum þess í samráði við þau fagráðuneyti sem koma að þessu máli. Með því, herra forseti, erum við að halda uppi gildum lýðræðisins. Við erum með því að segja að vilji fólksins og þau hlutföll sem birtast í skoðunum fólksins til þessa máls komi fram í gegnum Alþingi. Það er lýðræði. Ekki er hægt að tryggja einhverja betri aðkomu en það. Ef það er svo að þær skoðanir sem hægt er að finna hjá fulltrúunum, sem hið háa Alþingi mundi kjósa til þess að fara með slík mál, eru andstæð þeim okkar sem eru núna í stjórnarandstöðu verður bara svo að vera. Það er lýðræðið. Það er galli lýðræðisins en það er líka helsti kostur. Meiri hlutinn ræður.

Ég verð að segja, herra forseti, að það frv. sem liggur fyrir og felur í sér miklar breytingar af hálfu umhvn. er að öllu leyti ótækt. Það svarar í engu þeim kröfum sem ég hef lýst, t.d. varðandi lýðræðislega aðkomu. Það svarar heldur ekki þeim faglegu kröfum sem við hljótum að gera til máls af þessu tagi.

Í því skipulagi sem við viljum að gert verði fyrir miðhálendið er ætlun okkar að þar verði útfærð stefna stjórnvalda sem tekur til flestra hinna stærstu þátta í nýtingu landsins og samþætti áætlanir um landnotkun og landnýtingu. Í slíkri áætlun yrði fjallað um samgöngur, um fjarskipti, um orkumannvirki og að sjálfsögðu náttúruvernd, um það hvernig bæri að fara með og varðveita sögulegar minjar og hvernig ætti að nota landið í þágu atvinnuvega, ferðaþjónustu, orkuvinnslu. Hlutverk þessa skipulags yrði því að sætta andstæð viðhorf sem eru uppi um nýtingu landsins.

Það er sérstaklega dapurlegt að þingflokkur óháðra skuli ekki hafa fallist á skoðun okkar vegna þess að sá þingflokkur hefur lagt fram frv. sem byggist í rauninni að mörgu leyti á svipuðum viðhorfum. Það er frv. um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu. Það frv. er nefnilega mjög athyglisverð og frumleg nálgun á þessu máli. Ef það frv. hefði t.d. verið samþykkt hefði nánast verið hægt að sætta þær andstæðu skoðanir sem eru uppi í málinu. Hvers vegna? Vegna þess að þar eru tekin út fjögur svæði sem tengjast jöklum sem á þeim tillögum, sem liggja núna fyrir frá samvinnunefndinni, eru eins konar burðarásar í stórum friðuðum svæðum.

Með þessu hefði í rauninni verið hægt að leysa það vandamál sem ég hef lýst sem mismunandi skoðunum okkar, annars vegar þingflokks óháðra og þingflokks Samfylkingarinnar, á stjórnsýslunni. Með þessu væri nefnilega búið að koma undir eins konar stjórnsýslustig, svipað og við, þingflokkur Samfylkingarinnar höfum viljað, á þessum fjórum svæðum. Með öðrum orðum hefði verið búið að taka obba miðhálendisins undir stjórnsýslustig sem er mjög nálægt því sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið að boða.

Vegna þess að það er þingflokkur óháðra sem ber fram þetta fína frv., sem ég hef nú mært í mörgum ræðum fyrr á þessum degi, og sérstaklega hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem hefur útfært það af fágætri snilld, er það mjög merkilegt en erfitt fyrir þingmann með slaka meðalgreind að skilja hvernig á því stendur að sá sami þingflokkur og sá sami forustumaður á þessu sviði innan þingflokksins fellst á þær tillögur sem liggja fyrir hjá ríkisstjórnarliðinu en hafnar aðkomu okkar. Þrátt fyrir það er þó tillaga okkar um samræmt umhverfis- og auðlindaskipulag á miðhálendinu mjög nálægt þessum grófa ramma sem felst í rauninni í tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu. Sú tillaga byggist á þeirri vinnu sem er þegar búið að leggja til grundvallar í samvinnunefndinni og sem þær tillögur sem er að finna hjá stjórnarliðinu í þessu tiltekna máli tengjast að ýmsu leyti a.m.k., þótt þær byggist ekki að öllu leyti á henni.

Herra forseti. Framsfl. er að sjálfsögðu ekki í salnum eins og þegar umhverfismál eru til umræðu. Hann hefur, herra forseti, klúðrað umhverfismálum þjóðarinnar algjörlega. Það er kannski eðlilegt að skilja það þegar maður horfir út í þennan sal og sér þingmenn frá öllum stjórnmálaflokkum nema Framsfl. Framsfl. hefur ekki áhuga á umhverfismálunum og þegar þau eru rædd sést hann ekki. Enginn þingmanna Framsfl. er viðstaddur umræðuna. (Gripið fram í.) Það er auðvitað dapurlegt. Sjálfstæðismennina er að vísu að finna hér, hv. þm., því að ber er hver að baki. Nei, herra forseti, ég taldi að ég hefði nánast þróað upp augu í hnakkanum en mér fannst sem það væri hv. þm. Sturla Böðvarsson sem sæti í forsetastóli en ég sé að það er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og ég bið hann innilega afsökunar á því að hafa þannig beitt skilningarvitum mínum að mér fannst skyndilega sem það væri sjálfstæðismaður sem sæti í forsetastóli.

En svona er staðan dapurleg, herra forseti. Við erum að ræða mál sem hefur klofið íslensku þjóðina og sem hefur leitt til vakningar sem er miklu sterkari og hefur stríðari og öflugri straum en við höfum áður fundið varðandi umhverfismálin. Og hvar eru stjórnarliðarnir? Þeir eru ekki í sal Alþingis. Þeir eru ekki að ræða umhverfismál vegna þess að þeim er alveg sama. Þeir misbeita þeim meiri hluta sem þeir hafa til þess að ná fram niðurstöðu sem hentar þröngum hagsmunum þeirra. Þeim er alveg sama um fólkið. Auðvitað ætti Framsfl. sérstaklega að gefa þessu gaum.

Hann er núna staddur í þeirri undarlegu stöðu að fylgið við hann er að hrynja. Hann nær ekki vopnum sínum og það má skynja það á þingmönnum hans í ræðustóli og í annarri umgengni á hinu háa Alþingi að þeir eru ráðvilltir. Þeir skilja ekki hvernig á því stendur að þeir eru búnir að missa u.þ.b. helming fylgisins.

Skýringin er auðvitað hér. Skýringin er sú að Framsfl. hefur algjörlega algjörlega fatast flugið í umhverfismálum. Allt það sem hann hefur gert í umhverfismálunum hefur verið í andstöðu við það sem almenningur upplifir sem hagsmuni sína.

Við sjáum Kyoto-málið. Staðan var þannig að það var Framsfl. sem fór af stað með þessa óheillavænlegu stefnu varðandi Kyoto-bókunina. Þegar Framsfl. sá að sér, hvað þá? Þá var það auðvitað hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem vildi ekki staðfesta Kyoto og sem sveigði ekki bara hæstv. umhvrh. Guðmund Bjarnason, sem gengur núna heldur dapur í bragði í salinn, heldur líka hæstv. utanrrh. Það var Framsfl. sem hefur auðvitað barist fyrir því að á Austfjörðum yrði sett upp, ekki bara álver upp á 120 þús. tonn heldur var það fulltrúi iðnrn. sem boðaði á fundi á Egilsstöðum í vor að sett yrði upp álver upp á 720 þús. tonn, sem hefði meira en tvöfaldað losun gróðurhúsalofttegundanna sem hefur skapað heiminum öllum veruleg vandræði eins og þjóðinni er kunnugt.

Það var Framsfl. sem hafði frumkvæði að því að rífa miðhálendið úr höndum þjóðarinnar. Eftir að heillavænlega hafði tekist um að færa landið aftur í eign þjóðarinnar var það Framsfl. sem hafði frumkvæði að því að ráðstöfunarrétti var svipt burtu, þ.e. með þessu vonda frv. um sveitarstjórnarlög, sem ég sé að rifjast upp fyrir hv. þm. og formanni iðnn., Stefáni Guðmundssyni, í þessum orðum töluðum.

Þetta er ástæðan fyrir því að fylgi við Framsfl. er að hrynja. Þetta er ástæðan fyrir því að ef hv. þm. Stefán Guðmundsson hefði ekki góðu heilli og af þeirri skynsemd sem guð færði honum í vöggugjöf, kosið að draga sig í hlé að eigin frumkvæði þá mundi hann ekki eiga hér afturkvæmt eigi að síður, vegna þess að miðað við þær kannanir sem gerðar hafa verið bendir allt til þess að hann mundi skítfalla í kosningum. Hvers vegna er það? Ef hv. þm. Stefán Guðmundsson hefði boðið sig fram aftur í stað þess að draga sig til baka, sem hann hefur vit til og sem var nú skynsamlegt af honum, bendir allt til þess að hann mundi falla.

Staðreyndin er einfaldlega þannig að fylgi Framsfl. er að verða að engu. Það er dálítið dapurlegt en það eru skýringar á því. Ég er að segja það fyrir hv. þingmenn Framsfl., að það er þessi stefna þeirra í umhverfismálum sem hefur gert það að verkum að miðað við síðustu skoðanakönnun Gallups er ekki bara 2. maður á Reykjanesi fallinn og ekki 2. maður í Reykjavík fallinn heldur líka 1. maður á Reykjanesi fallinn, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Gæti verið að það tengdist með einhverjum hætti skoðunum hennar í þessu máli? Muna menn hvernig hún ætlaði að berjast fyrir hagsmunum kjósenda sinna, berjast fyrir því að við, íbúar þéttbýlissvæðanna, hefðum betri aðkomu að þessu máli? Það var hún sem stoppaði málið á sínum tíma. Það var líka hún sem rann þar grimmilega á rassinn í þessu máli, herra forseti, og gafst upp. Að sjálfsögðu er það þetta sem hefur áhrif á kjörfylgi Framsfl.

Hvers vegna, herra forseti, er ég þá að tuða um þetta mál? Hvers vegna er ég að rifja þetta mál upp? Vegna þess að þrátt fyrir allt er mér í senn annt um Framsfl., og annt um umhverfi og náttúru Íslands. Það vill svo til að það fer saman að bæta hag íslenskrar náttúru og kjörfylgi Framsfl. í þessum efnum.

Ef hæstv. umhvrh. hefði notað síðustu daga sína í embætti til að taka samstarfsflokknum tak og til þess að breyta þessu máli, til þess að standa í lappirnar, svo notað sé þekkt orðtak úr þessum sölum úr nýliðnum umræðum, gæti vel verið að honum hefði tekist í fyrsta lagi að ná fram sinni stefnu sem hann hefur fylgt varðandi Kyoto, ná fram þeirri stefnu sem hann hefur fylgt varðandi Fljótsdalsvirkjun og ná fram þeirri stefnu sem ég held að ráðuneyti hans hafi fylgt og hann sjálfur varðandi stjórnsýsluna á miðhálendinu. Því miður þá gerðist það ekki og því er nú komið sem komið er.

Herra forseti. Ég tel nú að á þessu stigi ræðu minnar þurfi ég aðeins að ræða þær tillögur sem koma beinlínis fram um skipulagið og vægi skipulaga skv. 2. gr. brtt. Til þess að ég eigi möguleika á því að eiga vitræna umræðu við þann sem ber formlega ábyrgð á málinu þyrfti eiginlega að flytja hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson til salar. (Gripið fram í: Fer þetta ekki að verða harla gott hjá þingmanninum bara?) Jú, þetta fer að verða harla gott, herra forseti. Ég heyri það að hæstv. umhvrh. hefur glaðst yfir þessari litlu ræðu og skyndilega hefur runnið upp fyrir honum hvernig á því stendur að sá flokkur, sem hann hefur verið einn af forustumönnum fyrir, er í þeirri ömurlegu stöðu sem raun ber vitni. Má vel vera að hann vilji að þessari umræðu ljúki til þess að hann geti þá reynt að semja sig og þetta mál í gegnum umræðuna hér. Það er auðvitað vel til umræðu af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar að ræða við hann um breytingar á þessu. Ég hef lagt fram hérna, eins og reyndar fleiri þingmenn Samfylkingarinnar, þann flöt sem er á því að ná samkomulagi um. Þegar grannt er skoðað er það ekki svo víðs fjarri þeim hugmyndum sem hafa komið fram í umræðunni hjá sumum þingmönnum.

Herra forseti. Er von til þess að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gangi í salinn eða ...?

(Forseti (GÁS): Já, það standa vonir til þess.)

Það gleður mig alveg óskaplega, herra forseti.

[18:45]

Herra forseti. Svo vill til að einn af umhverfis- og vistvænustu þingmönnum Framsfl. er kominn í salinn, sá maður sem helst hefur beitt sér fyrir því að sjónarmið umhverfisverndar beri hærri hlut í togstreitunni við stóriðjuna, eins og við þekkjum öll. Þetta er allt í lagi, herra forseti. Ef hv. þm. kemur ekki í salinn þá flyt ég mína ræðu til loka. Ég verð þá bara að flytja hana aftur þegar hv. þm. kemur.

Herra forseti. Það sem ég átti eftir að ræða hér er sá kafli í brtt. sem er undir fyrirsögninni: Skipulag miðhálendisins. Ég fagna því að þrátt fyrir allt hefur verið tekið svolítið tillit til þeirra orðaskipta sem við áttum við 1. umr. málsins. Þá vorum við að ræða hvernig ætti að gera mönnum mögulegt að fylgjast með tillögum sem varða skipulag miðhálendisins.

Ég setti fram þau sjónarmið að þar sem við eigum öll miðhálendið þá komi okkur öllum við jafnvel hin smæstu atriði skipulags miðhálendisins. Það þýðir, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að sem borgari í lýðveldinu Íslandi þá eigi ég að eiga kost á því að vita þegar menn eru að skipuleggja á smæstu skipulagsstigum, þ.e. á deiliskipulagsstigi, verðmætar perlur á miðhálendinu.

Ég óskaði þá eftir því að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem nú gengur mettur vel í salinn, mundi a.m.k. ræða það í nefndinni hvort ekki væri rétt að gera það að skyldu að auglýsa líka deiliskipulag á miðhálendinu. En ég sé ekkert í þessum tillögum sem lýtur að því.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm.: Er hann ekki þeirrar skoðunar að jafnvel við sem búum í sveitarfélögum sem eru víðs fjarri sumum af ómetanlegustu svæðum miðhálendisins, eigum líka rétt á því að hafa skoðanir á því skipulagi? Eigum við ekki líka rétt á því að geta gert athugasemdir við slík skipulög? Ef svar hv. þm. er jákvætt þá langar mig til þess að spyrja hann: Hvaða ráðstafanir hefur hann gert sem formaður umhvn., sem á að gæta réttar borgaranna í þessu tilliti, varðandi þessa lagasetningu, til þess gefa mönnum kost á þessu? Hægt er að taka sem dæmi yndislegar perlur á borð við Herðubreiðarlindir. Þangað hef ég margoft komið og er viss um að hv. þm. hefur það líka. Ef þar á að gera deiliskipulag þá vil ég sem þegn ríkisins hafa áhrif á hvernig þetta er skipulagt. Ég spyr hv. þm. í fyrsta lagi: Hefur hann tryggt rétt minn til þess að vita af því þegar slíkt skipulag er í bígerð og hvernig hefur hann tryggt rétt minn til þess að koma að athugasemdum þar af leiðandi og þar að lútandi?

Herra forseti. Í annan stað fagna ég því að ég sé að búið er að setja hér inn ákvæði, sem ég minnist ekki að áður hafi verið, um að þegar tillaga liggur fyrir að svæðisskipulagi miðhálendis eða um breytingu á því, þá skuli auglýsa það áberandi ekki bara í Lögbirtingi heldur líka í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. (Gripið fram í: Lofsvert.) Mjög lofsvert. En spurningin er hvort ekki hefði líka átt að gera slíkt hið sama þegar verið er að birta aðalskipulag í fyrsta skipti, a.m.k. þegar verið er að gera það í fyrsta skipti. Ég veit ekki betur en að obbi sveitarfélaganna sem hv. þm. hefur núna flutt inn á miðhálendið eigi eftir að gera sín aðalskipulög, að sjálfsögðu. Mér hefði fundist að fara hefði átt eins að a.m.k. þegar slík skipulög eru kynnt í fyrsta skipti og reyndar líka þegar þau eru endurskoðuð á lögskipuðum tíu ára fresti. Látum vera kannski smávægilegar breytingar. En a.m.k. hefði ég viljað að þetta yrði gert.

Herra forseti. Ég vil ræða hér innbyrðis vægi svæðisskipulags og aðalskipulags og fá fram afstöðu bæði hæstv. umhvrh. og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns umhvn. til þess. Hví spyr ég að þessu? Það hefur komið fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem er aðili að þessum brtt. og situr í umhvn. að hann hefur skilning, sem út af fyrir sig er ágætur, á þessu innbyrðis vægi, sem ég held að sé rangur og sem ég held að a.m.k. ýmsir af hinum ástríðufyllstu sveitarfélagasinnum í Framsfl. hljóti að telja að sé rangur.

Hv. þm. Kristján Pálsson túlkaði 3. mgr. nýrrar 12. gr. um skipulag miðhálendisins, sem er að finna í 2. tölul. brtt. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samvinnunefnd miðhálendis annast gerð svæðisskipulags miðhálendisins og gætir þess að samræmi sé innbyrðis með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga á svæðinu og að samræmi sé milli þeirra og svæðisskipulags miðhálendisins.``

Herra forseti. Hvað felst í því að samvinnunefndin eiga að gæta þess að samræmi sé með aðalskipulagstillögunum og svæðisskipulaginu?

Það vill svo til, herra forseti, að ég skrifaði og lagði fram þau skipulagslög sem þetta er byggt á og veit því pínulítið hvað í þessu felst. Það er alveg ljóst að það hefur verið skilningur til þessa að aðalskipulagið sé æðsta skipulagsstigið og það er það skipulag sem önnur þurfa að lúta. Mig rekur ekki minni til þess að þrátt fyrir ákvæði um svæðisskipulag, sem var nýtt í þeim lögum sem nú eru í gildi, sé farið skýlausum orðum um það hvernig eigi að fara með mál þegar ágreiningur er milli aðalskipulags og svæðisskipulags.

Þess vegna spyr ég hv. þm. og hæstv. umhvrh.: Er sú skoðun hv. þm. Kristjáns Pálssonar rétt að aðalskipulag sveitarfélags sem nær inn á miðhálendið verði að lúta svæðisskipulagi? Það þýðir að ef ágreiningur er milli sveitarfélags og samvinnunefndar þá ráði samvinnunefndin og sveitarfélagið verður að lúta.

Það er mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að ég á erfitt með að sjá sveitarfélögin lúta þessu og fallast á þetta. Ég hef þegar orðið þess áskynja í umræðunni að um þetta er ekki samræmi innan umhvn. Þetta þarf að vera á hreinu. Hefur hv. þm. Kristján Pálsson rétt fyrir sér þannig að aðalskipulagi verði að breyta ef það er ekki algjörlega í samræmi við svæðisskipulag? Eða þarf að breyta svæðisskipulaginu? Ef það er svo, hvaða gildi hefur þá þetta svæðisskipulag eins og það liggur fyrir þarna? Með öðrum orðum, herra forseti, er orðalagið ,,að gæta samræmis`` mjög loðið. Það verður að liggja alveg hnífskarpt fyrir hvað í þessu felst.

Ég minnist þess að í núverandi lögum er í 12. gr. að vísu talað um hvernig fara skuli með þegar ágreiningur rís milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumótun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis. Þá er getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar frestað staðfestingu svæðisskipulags. Þetta, herra forseti, er að finna í 12. gr. Hann getur frestað því, en ég spyr: Getur hann skipað viðkomandi sveitarfélagi fyrir? Hann getur auðvitað hafnað staðfestingu á aðalskipulagi. En getur hann skipað viðkomandi sveitarfélagi að breyta aðalskipulagi þannig að það lúti svæðisskipulagi?

Ég minnist þess líka, herra forseti, að í 22. gr. skipulagslaganna er að finna ákvæði þar sem tekið er á því þegar aðlægum sveitarfélögum tekst ekki að leysa ágreining um atriði sem þarf að samræma í aðalskipulagi. Þá á að frumkvæði Skipulagsstofnunar, ef ég man rétt, að fela sérstakri nefnd, sem er þá sameiginleg fyrir þessi sveitarfélög, að gera tillögur að skipulagi að því er varðar ágreiningsatriðin. Ég velti fyrir mér: Er ætlunin, ef upp kemur ágreiningur milli svæðisskipulags og aðalskipulags, að beita 22. gr. eða 12. gr. eða er bara allsendis óljóst hvernig eigi að fara með þetta?

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að þetta er algjört lykilatriði sem þarf að liggja alveg ljóst fyrir. Og til þess að flýta fyrir umræðunni og fá þetta alveg á hreint þá ætla ég að ljúka ræðu minni og fá fram viðhorf hæstv. umhvrh. og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar í þessu máli.