Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:31:00 (4747)

1999-03-10 19:31:00# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:31]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er ekki mörgum orðum við þetta að bæta heldur vil ég árétta það sem komið hafði fram um þetta ferli og þá breytingu sem hér er gerð og hvaða þýðingu hún í raun hefur fyrir málið eða gæti haft, þannig að það sé skýrt og liggi fyrir af minni hálfu.

Hæstv. forseti. Mig langar hins vegar að nota tækifærið vegna þess að í andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson áðan hef ég trúlega ekki verið alveg nákvæmur í lögskýringum þegar ég talaði um úrskurðarvald umhvrh. í deilum um aðalskipulag. En í skipulags- og byggingarlögunum er kveðið mjög skýrt og ítarlega á um hvernig ferli aðalskipulags er og auglýsingaferlið, vinna Skipulagsstofnunarinnar og aðkoma ráðherrans að málinu og hvernig hann getur þar tekið á málum ef ágreiningur er uppi. Tímans vegna er ekki hægt að lesa þetta allt saman eða skýra.

Úrskurðarvaldið sem áður var hjá ráðherra og fjölmargir úrskurðir sem stöðugt voru inni á borði hjá ráðherra vegna kærumála og ágreinings um byggingar- og skipulagsmál er nú í höndum svokallaðrar úrskurðarnefndar sem starfar skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaganna og ,,... kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögum þessum``, eins og þar segir, með leyfi forseta.

Síðar segir í þeirri sömu grein, 8. gr.:

,,Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til umhverfisráðherra.``

Þá hefur þessi lögskýring um ágreiningsmál verið lesin hér upp úr lögum.