Umræður um sjávarútvegsmál

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 20:39:18 (4755)

1999-03-10 20:39:18# 123. lþ. 84.92 fundur 350#B umræður um sjávarútvegsmál# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[20:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er frekar fátt um svör. Það hlýtur að skiljast sem svo að frá hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum sé ekkert að hafa, engar upplýsingar um eitt eða neitt, engar niðurstöður og jafnvel ekki vilja til eins eða neins.

Ég verð að segja, herra forseti, að það eru þá heldur dapurleg málalok ef svo á að fara. Ég vona að það sé a.m.k. alveg á hreinu hvar stíflan er í þessu máli. Það er ekki stjórnarandstaðan sem leggst gegn því að þessi mál verði tekin á dagskrá og rætt verði um viðskilnað ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum eða stöðuna sem uppi er í þeim efnum, bara þannig að þau skilaboð komist skýrt til þjóðarinnar.

Við erum tilbúin að greiða fyrir framgangi þess að gera sanngjarnar og nauðsynlegar leiðréttingar, tæknilegs eðlis, sem allir eru sammála um og vita að gera þarf. Lagasetningin í janúar var stórlega gölluð, og eins og þá var spáð fyrir um hafa nú þegar komið fram ýmsir fingurbrjótar í þeirri vinnu, eðlilega eins og höndum var til þess kastað.

Jafnframt er alveg ljóst, herra forseti, að það er ósanngjarnt hvernig fara á með þennan litla hóp sem sótt hefur sjó á grundvelli krókaveiða með dagatakmörkunum. Ef sú útreið sem þeim hópi er ætluð nú er borin saman við það sem sambærilega settur hópur fékk á vordögum 1994 og 1995, þá er þar um mjög gróft brot á öllum jafnræðisreglum að ræða. Þessir sjómenn fá að óbreyttu, ef engar lagfæringar koma til, mun ósanngjarnari útkomu en sá hópur fékk sem valdi um vorið 1994 og fékk lagfæringar á stöðu sinni aftur árið 1995.

Ég spái því, herra forseti, að þetta muni þykja eitt af ljótari dæmum um óvandaða stjórnsýslu og vond vinnubrögð ef þetta stendur eftir óleiðrétt.