Jarðalög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:27:43 (4804)

1999-03-10 23:27:43# 123. lþ. 84.22 fundur 547. mál: #A jarðalög# (fulltrúar í jarðanefndir) frv. 54/1999, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:27]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá landbn.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál. Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að breyta ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976, um að héraðsnefndir tilnefni fulltrúa í jarðanefndir. Segja má að héraðsnefndum hafi farið fækkandi á undanförnum árum vegna sameiningar og fækkunar sveitarfélaga. Nú er svo komið að á nokkrum landsvæðum starfa ekki héraðsnefndir lengur. Hefur því komið upp það vandamál að landbrh. hefur ekki verið unnt að skipa jarðanefnd þar sem tilnefningar hafa ekki legið fyrir frá héraðsnefnd. Vegna þessa þykir nauðsynlegt að breyta ákvæði 4. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að héraðsnefndir tilnefni fulltrúa í jarðanefndir.

Með frumvarpi þessu er lagt til að leyst verði úr vandamálinu með því að sýslumenn taki við því hlutverki af héraðsnefndum að tilnefna fulltrúa í jarðanefndir.

Nefndin mælir með samþykkt frv. Undir nál. skrifa allir fulltrúar landbn.