Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:43:51 (4809)

1999-03-10 23:43:51# 123. lþ. 84.31 fundur 607. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (aðsetur) frv. 53/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:43]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ágústi Einarssyni, að ég er því hlynntur að stuðlað sé að því að flytja ríkisstofnanir út á land. Það á ekki að vera sjálfgefið að þær séu staðsettar í Reykjavík, engan veginn. En það er eðlilegt, eins og fram kom í hans máli, að um slíkt sé fjallað á Alþingi, og að það eigi við jafnt um nýjar stofnanir sem aðrar. Þetta er hlutur sem skiptir máli og er eðlilegt að komi til umfjöllunar á Alþingi. Þetta vil ég að komi fram í ljósi þess að því hefur stundum verið haldið fram í þessum sal að það eigi að vera komið undir duttlungavaldi viðkomandi ráðherra hvar hann staðsetur stofnanir og hefur þá stundum verið uppi sá misskilningur að þeir sem lagt hafa áherslu á að ákvarðanir af þessu tagi komi fyrir Alþingi séu á því máli að allar stofnanir eigi að vera í Reykjavík. Því fer fjarri.

Þetta vil ég að komi fram í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í tímans rás um flutning ríkisstofnana.