1999-03-11 01:22:58# 123. lþ. 84.27 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[25:22]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að gera athugasemd við ummæli hæstv. ráðherra áðan þegar hann lýsti í lokaræðu sinni og ræddi um von sína um samkomulag um samvinnunefndina og vonaðist til að sá farvegur yrði góður.

Það er ekkert samkomulag um þetta mál. Það er ágreiningur í málinu. Það er pólitískur ágreiningur um þetta efni. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að Samfylkingin leggur til aðrar leiðir sem við höfum lýst. Við gerum formlega tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við höfum lýst hvernig haga eigi skipulagsmálum á miðhálendinu með annarri aðferðafræði.

Hæstv. ráðherra vill ekki fallast á það. Hann má hafa þá pólitísku skoðun, það er hans góði réttur. En það er ágreiningur um þetta efni. Það er ekkert samkomulag um það. Það er pólitísk samstaða um þá útfærslu sem hér er lögð fram, ekki einungis milli Sjálfstfl. og Framsfl. heldur einnig við fulltrúa þingflokks óháðra hér í þinginu, hv. þm. Hjörleif Guttormsson. Það þarf að koma hér skýrt fram að hv. þm. stendur að áliti meiri hlutans með fyrirvara. Hann hefur gert skilmerkilega grein fyrir skoðunum sínum í umræðunni. En það þarf að draga það skýrt fram í lokin að ágreiningur er um þetta efni, ekkert samkomulag er við okkur um það. Það liggur hins vegar fyrir pólitísk samstaða ríkisstjórnarflokkanna og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, um útfærslu á því efni sem hér er til umræðu.