1999-03-11 01:28:21# 123. lþ. 84.27 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[25:28]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði sett mig á mælendaskrá snemma í dag til þess að tala í þessu máli og hafði ætlað mér að hafa um það alllangt mál. Til að reyna að flýta fyrir þingstörfum tók ég mig út af mælendaskrá.

Hins vegar þegar ég heyrði áðan hvernig hæstv. ráðherra túlkar nú þá stöðu ef svæðisskipulag miðhálendisins stangast á við aðalskipulag sveitarfélags, hvernig honum hefur snúist hugur að því er virðist um 180° frá því í umræðum hans við Össur Skarphéðinsson hv. þm. hér í dag, þá blöskrar mér alveg gjörsamlega.

Einn liðurinn í ræðu minni sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í dag var nefnilega sá hve óvenjulega miklar brtt. hafa verið gerðar við frv., sem oft sýnir að það er illa unnið þegar það kemur inn. Það þurfti að vinna málið mikið í nefnd, og núna kemur í ljós að það er alls ekki, þrátt fyrir þessar ítarlegu greinar sem eru komnar í viðbót, eining um skilning. Og hæstv. ráðherra snýst um 180° á nokkrum klukkutímum.

Þá vil ég aðeins ítreka þá ósk sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að hæstv. ráðherra láti það ekki verða sitt síðasta embættisverk að staðfesta fyrirliggjandi skipulagstillögu sem samin var án aðkomu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjarða og án aðkomu náttúruverndarsamtaka.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það var rétt skilið hjá mér áðan að hann ætli að láta það verða sitt síðasta embættisverk að staðfesta fyrirliggjandi skipulagstillögur.