Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:28:51 (4965)

1999-03-11 15:28:51# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Sannast sagna hef ég nokkrar áhyggjur af málflutningi talsmanns Framsfl. Hann segir í þessari umræðu að Framsfl. sé tiltölulega sáttur við verk sín. Hann er tiltölulega sáttur við að hjá hjálparstofnunum í landinu, Hjálparstofnun kirkjunnar, Hjálparstofnun Rauða krossins og mæðrastyrksnefnd, séu ... (GÁ: Þetta eru útúrsnúningar.) Útúrsnúningar, segir hann. Flestir þeir sem þangað leita um nauðþurftir sínar, fæði og klæði, eru öryrkjar. Við erum að ræða málefni öryrkja og þá kemur hv. þm. Guðni Ágústsson hingað í ræðustól og segir að Framsfl. sé tiltölulega sáttur við verk sín. Mér finnst þetta áhyggjuefni og hann talar fyrir því að við sýnum mannúð og samhjálp. Við eigum að hafa sérstaka samúð með okkar minnsta bróður, segir hann.

Þá skulum við skoða verk ríkisstjórnarinnar í því ljósi. Hver er minnsti bróðir Framsfl.? Til hvaða ráðstafana hefur hann gripið á þessu kjörtímabili ef við lítum á skattamál eða velferðarmál? Hver er minnsti bróðir hv. þm. Framsfl. af Suðurlandi, hv. þm. Guðna Ágústssonar? Á þessu kjörtímabili hafa skattar fyrirtækja verið lækkaðir. Skattar á fjármagnseigendur, arðgreiðslur, hafa verið lækkaðar stórlega. Misskiptingin blasir hvarvetna við. Minnsti bróðir hv. þm. Guðna Ágústssonar, ég spyr: Var það hann sem var að kaupa lóðina í Garðabæ og borgaði út í hönd 700 millj. kr.? Eða var það sá sem borgaði Áburðarverksmiðjuna út í hönd fyrir 1,2 milljarða kr.? Var það minnsti bróðir Framsfl.?

Við erum að tala um stöðu öryrkja á Íslandi. Ég var að vekja máls á því að öryrkjar sem dveljast á stofnunum hafa í tekjur á mánuði hverjum 12 þús. kr. Ég reiddist því fyrir hönd þessa fólks, ég leyfði mér að gera það. Ég ætla að gera það og mun gera það þegar því er hreytt framan í þetta fólk að það þurfi ekki á klæðum að halda eða á peningum að halda til að ferðast. Í því samhengi vísaði ég til þeirra sjónarmiða sem komu fram hjá hæstv. fjmrh., að allt snerist þetta um hugarfar. Ég leyfi mér, fyrir hönd þessa fólks, að frábiðja hugarfar af þessu tagi. Ég vona að við berum gæfu til þess í komandi alþingiskosningum að losna við þá óværu sem er ríkissjórn Davíðs Oddssonar.