Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 16:16:41 (4980)

1999-03-11 16:16:41# 123. lþ. 87.11 fundur 612. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 9/1999, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar samþykktar höfðu verið breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða í janúar sl. var vitað að ekki mundi líða á löngu þar til taka þyrfti málið upp að nýju. Sá þröngi tímarammi sem sjútvn. var settur til að vinna það frv. ríkisstjórnarinnar sem átti að mæta kvótadómi Hæstaréttar og sú staða sem meiri hlutinn setti nefndina í hlaut að leiða til þess. Það var líka ljóst þá þegar að stór hópur þeirra sem breytingarnar tóku aðallega til mundi ekki geta lifað við þær, enda ekki til þess stofnað. Tilboðið var nánast um hvort menn vildu frekar láta hengja sig eða skjóta.

Það vakti athygli mína þá við umfjöllun um stöðu smábátaútgerðarinnar að forusta þeirra bað um vinnufrið fyrir sína menn og skyldi engan undra. Svo rækilega og svo oft hefur veiðikerfi þeirra verið sprengt upp og gefið upp á nýtt allt þetta kjörtímabil.

Með því frv. sem hér verður afgreitt í dag erum við ekki heldur að tryggja þann vinnufrið. Enn eru smáskammtalækningar á ferðinni. Verið er að sigla fyrir nokkrar víkur.

Þær tillögur sem hér liggja fyrir og eru nú loks til afgreiðslu í þinginu og farið hefur verið yfir eru þær sem samkomulag náðist um og meiri hlutinn á Alþingi var tilbúinn að samþykkja. Við í minni hluta nefndarinnar höfðum ýmsar aðrar hugmyndir um hvað gera bæri ef hreyft yrði við þessum málum á annað borð. Við töldum t.d. að breyta þyrfti lögum í þá veru að gætt yrði jafnræðis milli þeirra sem nú geta valið aflahámarkið og þeirra sem áður hafa átt það val, og að það bæri einnig að líta til vertíðarflotans og þeirrar fiskvinnslu sem kaupir hráefni sitt af honum.

Herra forseti. Lengra varð ekki komist. Um frekari leiðréttingar eða breytingar náðist ekki samkomulag á Alþingi. Minni hlutinn stendur hins vegar heils hugar að þeim takmörkuðu lagfæringum sem samkomulag náðist um núna og birtast í því frv. sem hér er til umræðu og afgreiðslu.