Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 16:26:04 (75)

1998-10-05 16:26:04# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið vitnað til sólarinnar í þessari umræðu í dag. Menn vilja kannski gefa svona umræðum ýmsar einkunnir og vitna í skáldin og segja að hér sé sólskin og sunnanvindur og Sörli ríði í garð. Þá er það spurningin hvað Sörli komi með með sér og hverjir njóti gjafa hans. Það var kannski hluti af inntaki umræðunnar um stefnuræðuna hverjir fá hinar góðu gjafir og hverjir lenda þar utan við. Ég kem kannski aðeins nánar að því á eftir.

Það er mikið til í því, eins og hér hefur komið fram, að verið er að auka við fjárveitingar á ýmsum sviðum og verið er að greiða niður skuldir og í sjálfu sér allt gott um það að segja. Ég sé t.d. mér til mikillar ánægju að framlög til þróunaraðstoðar eru aukin verulega og ríkisstjórnin loksins að taka sig á í þeim málum og framlög til rannsókna og fleira slíkt eru aukin. En sú spurning sem mér finnst liggja svolítið yfir vötnunum er hversu lengi þetta ástand muni vara. Þó að menn spái góðæri áfram á næsta ári þá er því ekki að neita að það eru blikur á lofti. Meðal annars slær Þjóðhagsstofnun ákveðinn varnagla í þjóðhagsáætlun og segir á bls. 7, með leyfi forseta:

,,Þá er mikilvægt að hafa í huga að það góðæri sem hér ríkir er byggt á traustum grunni og raunverulegum forsendum, ólíkt því sem stundum var áður. Þannig hafa komið til sögunnar nýjar atvinnugreinar sem hafa megnað að byggja upp öflugan útflutning, svo sem hugbúnaðargerð og ýmis hátæknifyrirtæki í framleiðslu- og þjónustugreinum.``

En á öðrum stað segir, þar sem verið er að ræða um framtíðarspá, að þetta mat sé þó háð þeim forsendum að efnahagsstarfsemi á heimsvísu verði ekki fyrir miklum eða langvarandi hnekki af þeim sviptingum sem eru nú á mörkuðum víða um heim. Sem betur fer hafa nýjar atvinnugreinar verið að koma upp sem eru í miklum vexti, eins og ferðaþjónustan, hugbúnaðargerð o.fl. þannig að fleiri stoðum hefur verið skotið undir efnahagslífið en um leið eru ákveðnar blikur á lofti.

Ég vil geta þess, ég nefndi það reyndar í ræðu minni sl. fimmtudagskvöld, að í síðustu viku var hér staddur framkvæmdastjóri stuðningssamtaka við íbúana á Austur-Tímor. Hann er búsettur í Ástralíu en hafði verið í tvígang í Indónesíu í síðasta mánuði. Hann greindi frá því að þar væri nánast allt í kaldakoli. Þeir sem hafa haldið uppi verslun og viðskiptum, þ.e. Kínverjarnir, eru meira og minna flúnir úr landi og það er mikið atvinnuleysi. Indónesar hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum af völdum náttúrunnar. Þetta er 200 milljón manna samfélag sem tengist efnahagslífinu í Austur-Asíu og þar hafa verið miklar erlendar fjárfestingar.

[16:30]

Þetta er bara eitt dæmið um ríki í Austur-Asíu þar sem efnahagslífið hefur hrunið nánast eins og spilaborg og við hljótum að vera mjög vakandi yfir því sem þarna er að gerast. Í þeim tímaritum sem skrifa um efnahagsmál, eins og The Economist og reyndar önnur tímarit sem fylgjast með ástandi heimsmála, má sjá að menn eru uggandi yfir þessu ástandi, hversu langt það muni ganga og hvaða áhrif það muni hafa á heimsvísu. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við horfum til framtíðar.

Alveg eins og í samdrætti vekur góðærið spurningar um forgangsröð. Hvað er það sem hefur forgang, hvar þarf að byggja upp? Ég rek augun í það þegar ég fer yfir þetta frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 að þó að menn hrósi sér fyrir aukin framlög þá gleymist að ýmsar stofnanir og ýmis svið samfélagsins hafa búið við mikið fjársvelti um árabil. Þar vil ég sérstaklega nefna tvennt. Annars vegar eru það menntamálin og þá ekki síst Háskóli Íslands sem hefur verið í miklu fjársvelti nú um árabil.

Af þessu frv. að dæma fær Háskóli Íslands 90,7 milljónir til viðbótar við framlagið. Við vitum að þetta dugir auðvitað hvergi nærri til að ná upp þeim mikla samdrætti og niðurskurði sem háskólinn hefur orðið fyrir á undanförnum árum. Þetta gerist á sama tíma og menn tala fagurlega um nauðsyn þess að bæta menntun hér á landi og eru að átta sig á því að nánast öll sóknarfæri í atvinnulífinu, svo maður noti nú þekktan frasa, byggjast á sérmenntuðu vinnuafli. Hér er mikil eftirspurn eftir sérmenntuðu vinnuafli. Gera þarf mikið átak í að mennta fólk og endurmennta og gefa ófaglærðu fólki kost á að auka og bæta menntun sína. Ég fæ ekki séð að unnið sé markvisst að þeim málum. Þar þarf að taka miklu betur á. Ég vil beina því til fjárln. að fara nú enn og aftur rækilega ofan í fjármál Háskóla Íslands. Maður sér það á línuritunum hér að ýmsir skólar á háskólastigi hafa fengið mun meiri peninga til sín. Þeir hafa margir hverjir verið í uppbyggingu og ég er ekki að lasta það en óneitanlega hefur háskólinn verið sveltur.

Annar þáttur sem vekja þarf sérstaka athygli á er á sviði heilbrigðis- og tryggingamála og þá einkum stóru sjúkrahúsin og ástandið þar. Þar er sama sagan, bæði Ríkisspítalarnir og Sjúkrahús Reykjavíkur bjuggu við mikinn niðurskurð á tímabili og söfnuðu upp verulegum halla. Sömu aðferðunum hefur verið beitt ár eftir ár, nefndir hafa verið settar á laggirnar sumar eftir sumar til þess að taka á uppsöfnuðum vanda. Sett var á laggirnar sérstök nefnd til þess að deila út peningum fyrir þetta ár en hér í frv. til fjárlaga kemur fram að þær áætlanir sem gerðar voru, bæði á Ríkisspítölunum og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur um sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðir og breytingar, hafa ekki náð fram að ganga. Hér á bls. 310 segir, með leyfi forseta, um Ríkisspítalana:

,,Áformuð hagræðingarverkefni samkvæmt samkomulagi heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá sl. hausti ganga ekki öll fram á þessu ári eins og ráðgert var.``

Nákvæmlega sama segir um Sjúkrahús Reykjavíkur, að aðgerðir þar hafa ekki enn náð fram að ganga nema að hluta. Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh.: Hvaða áform eru það sem ekki hafa náð fram að ganga á Ríkisspítölunum og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur? Hvað er þar um mikla fjármuni að ræða? Hversu mikið vantar upp á hjá Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur á þessu ári og hvernig standa þessar stofnanir núna andspænis uppsöfnuðum halla?

Ég hafði samband við formann stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur um helgina. Þar á bæ er verið að skoða fjárlögin en ekki komnar niðurstöður um hvað upp á vantar. Miðað við fyrri ár vildi ég fá það upplýst hér við þessa umræðu hvernig staðan er. Ef að líkum lætur er þarna verulegur vandi á ferðinni og enn einu sinni standa sjúkrahúsin frammi fyrir niðurskurði fái þau ekki aukið fjármagn. Þá spyr maður auðvitað: Hvar á að skera niður, hvaða þjónustu á að skerða? En þegar að því kemur að skerða þjónustu þá kemur nú heldur betur babb í bátinn sem eðlilegt er.

Ég er svo heppin að hæstv. dómsmrh. skuli sitja hér og mig langaði til þess að beina til hans spurningu. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég hef ekki farið nægilega rækilega yfir fjárlögin og eflaust eru hér margir liðir sem vert væri að spyrja um og velta fyrir sér. Í kaflanum um dómsmrn. rak ég augun í, og það er skýrt á bls. 288 í frv., að það sé mjög aukinn kostnaður við gjafsóknir hjá ráðuneytinu og þar segir: ,,Kostnaður við gjafsóknir hefur aukist jafnt og þétt hin síðustu ár og verður framlag 31,3 millj. kr. á næsta ári samanborið við 16,7 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs.`` Á þessum lið er næstum helmingshækkun og maður spyr sig auðvitað: Hvað býr hér að baki? Og ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh.: Hvaða skýring er á því að þarna er svo mikil aukning? Er það fyrst og fremst efnaleysi? Er dýrara að sækja mál en verið hefur eða hvað býr hér að baki?

Þá minnist ég þess að sl. vor voru lagðar fram þrjár skýrslur frá hæstv. dómsmrh. varðandi það hvernig fylgja ætti eftir tillögu sem samþykkt var á Alþingi fyrir nokkrum árum, um aðgerðir til að draga úr heimilisofbeldi. Ég fæ ekki séð að það sé neins staðar vikið að þeim málum hér, þ.e. í fjárlögum næsta árs. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Stendur ekki til að fylgja þessum skýrslum eftir með aðgerðum sem væntanlega kynnu þá að kosta peninga? Hvað líður þessum málum? Þarna er að mínum dómi um afar brýnt efni að ræða.

Í umræðunni hefur mikið verið vikið að öryrkjum og stöðu þeirra. Á aðalfundi Tryggingastofnunar fyrir rúmri viku síðan kom fram að það er verið að vinna að könnun á högum öryrkja. Ég stóð reyndar í þeirri meiningu að einn megintilgangur þessarar könnunar hefði verið að reyna að átta sig á því hvers vegna öryrkjum hefði fjölgað svo mjög hér á landi sem raun ber vitni. Hver er ástæðan fyrir því? Þessi könnun er skammt á veg komin. Hins vegar er það alveg ljóst að stór hópur öryrkja býr við afar kröpp kjör. Á þessum aðalfundi kom fram í því samhengi að það eru til öryrkjar, fólk sem býr við 100% örorku, sem hvergi á heima og er hvergi skráð. Það er afar alvarlegt mál sem þarf að fara betur ofan í.

Það sem mér leikur hugur á að vita og kann að hafa verið spurt um hér áður í dag varðar þá yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. að dregið verði úr eða jafnvel horfið frá því að tengja bætur öryrkja við tekjur maka. Flestum ber saman um að slíkt er óþolandi misrétti sem felst í því að kerfið lítur ekki á einstaklingana heldur tengir öryrkjann við makann og fólk getur orðið algjörlega bótalaust. Ég spyr: Er gert ráð fyrir þessu í fjárlögum? Ég fæ ekki séð að það sé gert. Ef svo er ekki þá er spurningin: Hvenær er meiningin að þessi tekjutenging verði afnumin? Er það sem sagt ekki á næsta ári? Verður því vísað til fjárln. að áætla þann kostnað sem þessu fylgir? Mér finnst afar brýnt að í það minnsta verði stigin skref á næsta ári hvað varðar afnám þessarar tekjutengingar.

Eins og hér hefur verið minnst á fyrr í dag er enn einu sinni tekið fé af erfðafjárskatti inn í ríkissjóð, fé sem er eyrnamerkt Framkvæmdasjóði fatlaðra. Meira en helmingur skattsins rennur í ríkissjóð í stað þess að renna til framkvæmdasjóðsins. Nú getum við auðvitað deilt um það hversu mikil þörfin er fyrir framkvæmdir á vegum sjóðsins en alla vega er ljóst að skortur er á sambýlum bæði í Reykjavík og á Reykjanesi. Þar er þörfinni fyrir framkvæmdir hvergi nærri sinnt.

Eins og ég hef áður nefnt við þessar umræður um fjárlög og þetta atriði sérstaklega finnst mér spurningin vera: Eigum við ekki að hætta að vera með svona eyrnamerkta stofna og vera alltaf að klípa af þeim? Það er aldrei neitt að marka svona eyrnamerkta tekjustofna. Er þá ekki miklu betra að ganga bara hreint til verks og ákveða upphæðina heldur en að ganga svona fram ár eftir ár? Mér finnst þetta alveg ömurleg framganga og vil ítreka það að ég held að full þörf sé fyrir alla þessa peninga í þágu framkvæmda fyrir fatlaða.

Ég vil nefna hér eitt mál til viðbótar. Ég sé hér félmrh. út undan mér. Í þessu frv. er einungis reiknað með að Jafnréttisráð fái 30 millj. kr. í sinn hlut. Við samþykktum í vor framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum þar sem gert var ráð fyrir fjölda nýrra verkefna. Mér finnst Jafnréttisráði vera skorinn hér mjög þröngt stakkurinn og spyr hvort það sé virkilega ekki vilji til að veita meira fjármagn til jafnréttismálanna, ekki síst til þess að reyna að tryggja það að áætlun ríkisstjórnarinnar verði framfylgt. Ég held að það veiti ekki af því.

[16:45]

Og allra síðast, hæstv. forseti, vegna þess að fyrr í dag var minnst á Þjóðminjasafnið --- ég fer nú svolítið fram og aftur í þessu --- og harmað að engar sýningar yrðu á þess vegum meðan viðgerðir standa yfir, þá langar mig að koma því að að það er flókið mál að koma upp sýningum á þjóðardýrgripunum. Það þarf að tryggja þeim ákveðið hitastig og rakastig og það þarf auðvitað ákveðið öryggiskerfi og slíkt húsnæði er bara hreinlega hvergi til og væri mikið mál að koma því upp. Við setjum ekki Valþjófsstaðahurðina hvar sem er eða aðra dýrgripi sem við eigum. En vonandi ganga viðgerðirnar á Þjóðminjasafninu fljótt og vel enda orðið löngu, löngu tímabært að bæta þar aðstöðu. Ég hef stundum nefnt það í þessari umræðu að Þjóðminjasafnið sjálft er nú orðið hálfgerður forngripur.

Hæstv. forseti. Það er auðvitað af mörgu að taka í þessu frv. en enn og aftur vil ég minna á að það er afar brýnt að taka á kjörum þeirra hópa sem verst standa að vígi, hópar aldraðra og öryrkja, og því ítreka ég spurningu mína til hæstv. heilbrrh.: Hvar finnum við þess stað í þessu frv. að til standi að bæta kjör þessara hópa?