Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:36:18 (88)

1998-10-05 17:36:18# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ekki átti ég von á því að mjög mikil reisn yrði yfir umræðu stjórnarliðanna um fjárlög en þó verð ég að segja að ekki átti ég von á því að hér yrði ,,eitt lítið lettersbréf`` gert að svo miklu umræðuefni sem raun bar vitni í ræðu hv. þm. Árna Johnsens. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér fannst það innlegg tæplega eiga erindi í umræðu um fjárlög ríkisins. Nóg um það.

Þar sem ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh. komi hér með sínar ræður og tjái sig um þau mál sem bæði snerta spurningar sem beint hefur verið til þeirra og ábendingar eða athugasemdir þá ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að bæta við spurningum til þeirra. En áður en ég kem að því ætla ég að vekja athygli á mjög mikilvægum þætti sem hér kom fram í umræðunni í dag og fékk ekki það kastljós sem ástæða hefði verið til. Það voru upplýsingar sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún bar saman stöðu fjárlaga á síðasta kjörtímabili og þessu, þ.e. úr hverju ríkisstjórnir þessara tveggja kjörtímabila höfðu að spila og hverju munar. Í máli hennar kom fram að það munar hvorki meira né minna en 100 milljörðum á þessum tímabilum hvað ríkisstjórnin sem nú situr hefur haft úr meiru að spila en sú ríkisstjórn sem þá sat og kemur víst fáum á óvart sem til þekkja og þekkja samdráttinn og efnahagsþrengingarnar sem þá ríktu þó reyndar hafi staðan verið sú þá að þá var staðinn vörður um mikilvæga málaflokka svo sem húsnæði fyrir lágtekjutekjufólk og málaflokk fatlaðra. Þá hefði ekki þótt mikil reisn yfir því að boða félagslegt húsnæði upp á 120 íbúðir eins og nú þykir hin mesta frétt. Ég ætla einmitt að draga athyglina að þessu. Staðreyndin er sú að á þessum fjórum árum hafði sú ríkisstjórn sem þá sat úr samtals 703 milljörðum að spila í tekjur á móti 831 milljarði, þegar reyndar sveitarstjórnir eru teknar með sem sagt er að séu um fjórðungur af aukningunni. Við leyfum okkur því að segja að í stað þessara 130 milljarða þá muni um 100 milljörðum. Nú er um 100 milljörðum meira úr að spila til þarfra verka en á fyrra kjörtímabili. Enginn málaflokkur er settur í forgang. Ekkert er varið sem áður þótti mikilvægt og merkilegt. Ekki staðinn vörður um málaflokk fatlaðra. Ekki er verið að standa vörð um félagslega húsnæðiskerfið. Nei, öðru nær. Og því er veifað sem stórri frétt í fjárlögunum, herra forseti --- og bið ég heilbrrh. að leggja ögn við eyru --- og er vitnisburður þessarar ríkisstjórnar að hún sé að taka félagslega á og koma með úrbætur þar sem mjög á skortir. Herra forseti. Ég er þar að vísa til yfirlýsingar um 120 hjúkrunarrými fyrir aldraða. Ég bið hæstv. heilbrrh. að leggja við eyru. 120 hjúkrunarrými fyrir aldraða er það sem á að slá sér upp á í þessu fjárlagafrv.

Ég ætla að leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði í dag í andsvari mínu við fjmrh. um erfðafjárskattinn og þessa glæsilegu stöðu, 120 hjúkrunarrými, af því að hvorugur ráðherrann var þá kominn hingað til Alþingis.

Það skila sér um 480 millj. kr. í erfðafjárskatt á næsta ári. Það kemur fram í fjárlögunum að 235 millj. eiga að fara í Framkvæmdasjóð fatlaðra, 245 millj. eru skertar af því framlagi sem með lögum hefur átt að fara til uppbyggingar málaflokks fatlaðra og rennur í ríkissjóð.

Þegar maður skoðar áformin og yfirlýsingarnar um hjúkrunarrúmin þá kemur fram að þau felast í 60 rúmum fyrir aldraða sem eiga að kosta 72 millj., 26 rúmum á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði og ætlað til þess 37 millj. kr., 25 hjúkrunarrúmum í Garðabæ og ætlað til þess 25 millj. og í fjórða lagi er gert ráð fyrir að útgjöld hækki um 50 millj. þar sem dvalarrúmum er breytt í hjúkrunarrúm.

Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Þetta þýðir u.þ.b. 185 millj. kr. Um það bil 185 millj. kr. kostar pakkinn sem ríkisstjórnin nefnir sem mikilvægasta þátt fjárlaganna og á að bæta úr brýnni þörf með 120 hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. En þetta nær ekki upphæðinni sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur skerst um. Það má gefa sér það að vinirnir í heilbr.- og félmrn., hæstv. ráðherrar, hafi skipt með sér erfðafjárskattinum sem á að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra til þess að eiga fyrir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Er þá staðan svona góð í framkvæmdasjóðnum, herra forseti? Nei, öðru nær. Samkvæmt yfirliti sem hæstv. félmrh. skilaði til Alþingis og miðast við 31. desember sl. var biðlistinn 362 rými þar sem beðið var eftir húsnæði. Ég spyr hæstv. ráðherra og óska eftir að fá svar við því í ræðu hans hér á eftir hvort í úrræðunum sem áformuð voru fyrir 1998 upp á 46 rými af þessum 362 sem þörf er á, hvort inni í þessum 46 rýmum sé að finna útskriftarpakkann frá Kópavogshæli? Er þá bara bið eftir húsnæði? Öðru nær. Biðlisti eftir dagvistarplássi er 119 pláss.

Herra forseti. Ég hafði samband við það umdæmi sem ég þekki best, Reykjanesumdæmi, og fékk upplýsingar um að þar eru 140 á biðlista eftir búsetu, 92 á biðlista eftir dagtilboðum og tveir þriðju af þeim þurfa hæfingarúrræði sem hvergi blasa við. Bara á þessum stað þarf tvær hæfingarstöðvar og a.m.k. einn verndaðan vinnustað. Á sama tíma renna 245 millj. í ríkissjóð eða, herra forseti, yfir til heilbrrn. til að hægt sé að skreyta sig með 120 hjúkrunarrúmum fyrir aldraða. Þannig er það.

Herra forseti. Mér liggur á hjarta að fá svör félmrh. við spurningum um húsnæðismálin. Hefur ráðherra eitthvað skoðað framtíðarviðleitnina þegar öll viðleitnin við að fjölga leiguíbúðum er úr 50 í 120? Ég geri ekki lítið úr því. Það má segja að þetta sé 100--120% fjölgun. Ég geri ekki lítið úr því þó að tölurnar séu svo lágar að manni finnist næstum því að 120 sé jafnlágt og 50 þegar biðlistinn er upp á 600 leiguíbúðir. Eru komin einhver áform um næstu ár á eftir eða á bara að vera með 120 og ekki frekari framtíðarsýn?

[17:45]

30 millj. er talinn aukinn kostnaður vegna biðlauna starfsmanna í nýja Íbúðalánasjóðnum. Ég spyr ráðherrann: Er búið að ganga frá því hverjir munu starfa áfram eða bíður það hins nýja framkvæmdastjóra? Liggur það fyrir hve margir verða ekki endurráðnir hjá nýja Íbúðalánasjóðnum? Liggur það fyrir hve fjárhæðin er há sem á að fara í biðlaun til þeirra sem verður vísað á dyr og liggur það fyrir hvort þeim sem ekki verður vísað á dyr núna verður vísað á dyr síðar þar sem félagslega húsnæðiskerfið er lagt af, húsbréfakerfið er á leið til bankanna og óljóst hvað verður með ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar? Ég spyr um áformin varðandi hana og óska þess, herra forseti, að ráðherrarnir hafi tök á að koma inn á þessar spurningar mínar í svörum sínum á eftir.

Herra forseti. Enn einn þáttur hefur verið vanræktur í tíð félmrh. Allir vita hvað menntun, endurmenntun, símenntun og starfsmenntun er mikilvæg á árunum sem koma. Tækniþróun, hin öra breyting í atvinnuháttum kallar á að fólk endurmennti sig til nýrra starfa. Það er engin framtíðarsýn varðandi þennan þátt, ekki í félmrn. vegna þess að upphæð til starfsmenntunar stendur í sömu fjárhæð og hún var eftir uppbyggingarkafla síðasta kjörtímabils, nefnilega 50 millj. kr. Ég spyr líka: Hver eru framtíðaráform ráðherrans varðandi þann þátt?