Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:02:46 (149)

1998-10-06 16:02:46# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram hjá þeim hv. ræðumönnum sem hér hafa talað þá er þetta mál að koma fyrir Alþingi í þriðja sinn. Ég tók til máls í umræðu um málið í fyrra og í sjálfu sér er ekki miklu við það að bæta. En mig langaði aðeins að fjalla örlítið um orðræðu hv. 1. flm., Einars Odds Kristjánssonar, hér áðan þar sem hann í fyrsta lagi kallaði eftir afstöðu Alþingis.

Ég tel að Alþingi hafi svarað þessari spurningu 1994 því að þá var Brunabótafélagi Íslands breytt í eignarhaldsfélag þar sem tilgangur félagsins var nánar skilgreindur í 3. gr. Þá tók Alþingi afstöðu til þessa máls. Ég ætla ekkert að segja til um það hvaða skoðun ég hef á þeirri niðurstöðu sem þar varð en þar varð ákveðin niðurstaða sem er alveg ljós og fram kemur í lögum nr. 68/1994. Ég get því ekki tekið undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að Alþingi hafi ekki tekið afstöðu til þessa máls. Hvorki ég, sá er hér stendur, hv. þm. Pétur Blöndal né hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson áttum sæti á Alþingi þegar Alþingi svaraði þessari spurningu, þ.e. breytti hinu gagnkvæma tryggingafélagi í Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands með markmiði og tilgangi eins og fram kemur þar í 3. gr.

Í öðru lagi vil ég líka mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni áðan um viðurkenningu séreignarréttarins og að þetta frv. væri í rauninni grundvallarmál hvað það varðaði. Ég er ekki sammála því Til þess að stytta mál mitt og þurfa ekki að lengja þessa umræðu því að þetta er í þriðja sinn sem frv. kemur fram þá vísa ég m.a. til 4. tölul. fskj. sem fylgir með frv. þeirra félaga. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því hversu óvirkt og óvisst hugsanlegt tilkall félagsmanna BÍ [Brunabótafélags Íslands] er til eigna BÍ verður að telja líkur á að löggjafinn geti án þess að það fari í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um ráðstöfun á eignum BÍ í þágu þeirra markmiða, sem lög um BÍ hafa verið byggð á, enda séu uppfyllt ýmis almenn skilyrði slíkrar lagasetningar.``

Virðulegi forseti. Þessi spurning er ekki eins skýr og hv. þm. vill vera láta því að það hugsanlega tilkall sem hér er vitnað til er bæði óvirkt og óvisst. Það er því örlítil einföldun hjá hv. þm. að setja þetta þannig fram að það snúist um grundvallarspurningar um séreignarrétt eða ekki séreignarrétt. Ég vil mótmæla þessari framsetningu á málinu.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, af því að ég ætla ekki að setja á langa ræðu, ítreka það sem ég sagði fyrr, að Alþingi svaraði spurningunni um það hvernig það vildi skipta upp hinu gagnkvæma tryggingafélagi á árinu 1994 þannig að Alþingi hefur þegar svarað þeirri spurningu. Á hinn bóginn má deila um það hvort sú leið sem þar var farin hafi verið rétt. Það er umdeilanlegt. Ég svara því en ekki úr þessum ræðustól. Hitt er ljóst að Alþingi hefur tekið ákvörðun og þetta frv. er þá fyrst og fremst frv. til þess að breyta þeirri ákvörðun. Það er að mínu viti ekki rétt skilgreining hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann talar um gagnkvæmt tryggingafélag vegna þess að því var breytt í eignarhaldsfélag 1994. Það er eins og það þrep hafi gleymst þegar menn eru að skilgreina hér þá stöðu sem nú er uppi og menn vilja breyta.