Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:30:56 (178)

1998-10-07 15:30:56# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega stórt mál sem við erum að ræða hér þó að umræðan sé ljúfleg og fáir í salnum. Ég vil sérstaklega þakka að hæstv. umhvrh. skuli vera hér og ræða þetta mál við okkur. Það var athyglisvert að hlusta á þau viðbrögð hans hér áðan að Íslendingar eigi að gerast aðilar að Kyoto-samningnum, að við eigum að undirrita hann, að við eigum að taka þátt í þessu stóra verkefni á ábyrgan og markvissan hátt. Þetta eru sterk orð og hvetjandi. En síðan kemur fjórða setningin: ,,En við eigum ekki að undirrita nú þegar af því að 10% er of lítið fyrir okkur og hagkerfi okkar.``

Þá er eðlilegt að sú spurning vakni sem hefur verið varpað fram hér: Ætlar þessi ríkisstjórn að standa utan við Kyoto-samninginn ef hún fær ekki meira en 10%? Verðum við þá e.t.v. eina ríkið meðal iðnaðarþjóðanna sem ekkert getur lagt af mörkum í þessu mikla hagsmunamáli framtíðarinnar? Sú spurning vaknar.

Þetta mál er að mörgu leyti flókið. Þó að það sé umhverfismál og stærsta umhverfismál okkar tíma þá er þetta líka utanríkismál og það er svo auðvelt að beina umræðunni í þann farveg að ekki sé sama hvernig þessi mál séu rædd heima fyrir út af samningsstöðunni. Þetta er auðvitað líka hagsmunamál fyrir ríkisstjórn, meira að segja ríkisstjórn í góðæri, vegna þess að með því að fá svigrúm fást auknir peningar. Svigrúm þýðir peningar. 10% þýðir minni peningar en ef þú færð 11% eða 12%. 11% eða 12% þýðir öðruvísi fjárhagsleg framtíð. Um þetta erum við að tala.

Ef við ætlum að taka þátt í þessu með þeim fallegu orðum að Íslendingar eigi að gerast aðilar, eigi að taka þátt í verkefninu með ábyrgum og markvissum hætti þá vaknar spurningin: Hvernig tökum við þátt í verkefninu ef niðurstaðan verður sú að ekki fæst meira en 10% og ríkisstjórnin heldur fast við sína afstöðu?

Ríku þjóðirnar sem búa við annað umhverfi og öðruvísi orkugjafa hafa ákveðið það að minnka losun. Hvernig sem á stendur heima fyrir hjá hverri og einni þá hafa þær ákveðið með undirritun að minnka losun. Þar fyrir utan stendur þó ein rík þjóð og ég ætla að koma að því síðar.

Að mínu mati eru það pólitísk skilaboð að skrifa undir Kyoto-bókunina. Það eru pólitísk skilaboð um að Ísland ætlar að taka þátt í verkefninu á ábyrgan og markvissan hátt. Síðan væri það verkefni ríkisstjórnar að útfæra og kynna það hvernig hún ætli að ná þeim markmiðum sem lögð eru til grundvallar. Að skrifa undir gæti þýtt að Ísland trúi því að skilningur sé á sérstöðu þess og treysti því að staða þess í orkumálum og það sem Ísland hefur sett fram verði viðurkennt. Að skrifa undir getur þess vegna verið sterkara en að rembast eins og rjúpan við staurinn við að biðja um 0,5--2% sem menn vilja fá í viðbót við þessi 10% sem er það mesta sem þjóð hefur fengið. Þá hljótum við sem teljum að reisn sé yfir því að skrifa undir og að það geti þýtt að við sýnum traust og við séum að kalla eftir skilningi, að það gætu verið sterkari og mikilvægari skilaboð en skilaboðin sem ríkisstjórnin sendir frá sér, hljótum að spyrja: Hvað er viðunandi niðurstaða? Á þetta að vera opin bók fyrir okkur eða er hugsanlegt að ríkisstjórnin telji sig geta fengið ákveðnar heimildir, t.d. um eitthvert ákveðið magn stóriðjuframkvæmda og síðan sé hún tilbúin að skrifa undir þegar hún sé búin að fá einhvern slíkan pakka? Þetta höfum við ekki fengið að vita og um þetta er ekki rætt.

Umræðan um þessi mál rennur oft inn í umræðu um hagsmuni byggðarlaga og það flækir umræðuna. Það flækir umræðuna þegar henni er beint að ákveðnum byggðarlögum og talað um að undirritun geti skaðað hagsmuni ákveðins byggðarlags vegna þróunarinnar þar. Þess vegna er þetta bæði byggðamál og utanríkismál auk þess að vera umhverfismál og það gerir þetta mál flókið.

Það er mjög erfitt að fóta sig á taktík ríkisstjórnarinnar. Það eru bara tvö OECD-lönd sem hafa ekki undirritað. Það er litla Ísland með hagkerfið sitt, en umhvrh. sagði að það yrði að fá lausn fyrir þetta litla hagkerfi, og það eru stóru Bandaríkin með stóra hagkerfið sitt. Hvað gerist nú ef Bandaríkin ákveða að skrifa undir á fundinum í Buenos Aires? Hvað gerist ef stóru Bandaríkin með stóra hagkerfið sitt, sem er eina OECD-landið fyrir utan okkar sem ekki hefur skrifað undir, skrifar undir? Ætlar þá litla Ísland með litla hagkerfið sitt áfram að biðja um meira? Hvað er þetta meira sem litla Ísland er að biðja um? Við þessu hafa ekki fengist svör og eiginlega ætlast ég til þess, herra forseti, að umhvrh. komi og svari okkur: Hvað er þetta meira sem við þurfum að fá? Af hverju getum við ekki notað hina mýkri nálgun í samskiptum þjóða, þ.e. að hafa trú á því að með því að skrifa undir séum við að segja: Við ætlum að vera með í þessu stóra verkefni sem varðar þjóðir heims og varðar börnin okkar. Við ætlum að vera með í því og leggja okkar af mörkum vegna þess að við eigum hreina orkugjafa og getum gert það sem aðrir geta ekki gert. Þess vegna ætlum við í alla þá uppbyggingu sem þarf hvort sem það eru aðgerðir á vegum skógræktar og uppgræðslu eða aðrir þættir sem við þurfum að breyta í okkar hagkerfi. Þegar maður beitir þessari mýkri nálgun er kannski hægt að biðja um einhvern aðlögunartíma þannig að mark verði á okkur tekið af því að við erum að segja að við ætlum að vera með í að taka á alþjóðavanda.

En núna lítur út fyrir að við ætlum ekkert að vera með, að við mælum bara fögur orð. En hinar hreinu orkulindir okkar geta þá virkað í báðar áttir. Þær virka vel á alla þá sem horfa hingað til landsins, á þetta hreina land, sækja hingað til að ferðast um víðerni okkar og njóta. Þeir hljóta að hugsa: Afskaplega er þetta gott og ríkt land sem á þessi víðerni, þessa fegurð og þennan hreinleika. En þetta virkar líka öfugt fyrir okkur þegar við biðjum um meira en 10% af því að við eigum hreinar orkulindir, hreint og fagurt land því þeir sem eiga ekkert slíkt hljóta að hugsa: Afskaplega eru þau eigingjörn. Auðlindir okkar slá því í báðar áttir og þess vegna held ég að við eigum að haga okkur með reisn. Við eigum að samþykkja þessa tillögu og við eigum að gerast aðilar. Við eigum að undirrita núna og síðan þegar verkefnið er lagt fram og kynnt á að ræða hvort einhvern sveigjanleika þurfi til að ná þessum markmiðum.