Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:39:29 (179)

1998-10-07 15:39:29# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lýst því nú þegar að mér finnast það mjög ánægjuleg sinnaskipti sem hafa komið fram hjá talsmönnum Alþfl. í þessari umræðu og með framlagningu þessarar tillögu í sambandi við stóriðjuframkvæmdir í landinu. Það er ekki langt síðan ég stóð í nokkuð hörðum deilum við talsmenn Alþfl. Ég þarf ekki að fara alla leið aftur til Jóns Sigurðssonar, fyrrv. iðnrh., til þess að rekja það. Það má líta nær. Í sambandi við stækkun járnblendiverksmiðju á Grundartanga fyrir einu ári eða svo var t.d. um að ræða ákvarðanir sem vörðuðu m.a. verulega aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda. Nú skil ég talsmenn Alþfl. og talsmenn þessarar tillögu þannig að menn séu að tala um að lýsa sig reiðubúna til þess að setja strik yfir þær hugmyndir um stóriðjuframkvæmdir sem uppi hafa verið í landinu að undanförnu og ráðgerðar hér og þar á landinu og hefur m.a. verið ýtt á eftir þeim af byggðarlögum o.s.frv.

Ég tel að það sé nauðsynlegt við þessa umræðu, vegna þess að hún varðar mjög stórt mál, að það sé alveg ljóst að menn séu í raun að skuldbinda sig í þeim efnum. Þess vegna spyr ég hv. formann þingflokks Alþfl., talsmann þeirra í þessu máli: Er með þessum orðum sem hér hafa fallið af hennar hálfu verið að lýsa því yfir að ekki sé að vænta stuðnings við uppbyggingu t.d. magnesíumverksmiðju á Reykjanesi, frekari stækkun járnblendiverksmiðju á Grundartanga eða aðrar viðlíka stóriðjuframkvæmdir sem hér hafa verið á dagskrá og mjög verið ýtt á eftir af ýmsum? Mér finnst alveg nauðsynlegt að þetta sé skýrt í þessari umræðu. Þess vegna er þessi spurning fram borin.