Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:23:18 (200)

1998-10-08 11:23:18# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hið dapurlega í þessu máli er sú staðreynd að hæstv. umhvrh. talar á þann veg að menn skilja það að hann hefur réttan skilning á málinu og ég dreg ekki í efa góðan vilja hans til þess að haga verkum ríkisstjórnarinnar talsvert öðruvísi en raun ber vitni. En hann er hins vegar í þeirri óþægilegu stöðu að vera í klemmu á milli tveggja annarra hæstv. ráðherra, utanrrh. og iðnrh. sem bókstaflega hafa tekið af honum völdin og þetta vitum við.

Herra forseti. Mig langar að leyfa hæstv. umhvrh. að hlýða á örlitla tilvitnun. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Eitt helsta áhyggjuefni Íslendinga varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hugsanlegar afleiðingar þeirra á hafstraumakerfi jarðar og Golfstrauminn, sem veldur því að meðalhiti á Íslandi er mun meiri en búast mætti við miðað við hnattstöðu landsins.``

Herra forseti. Hvaðan er þessi tilvitnun vera komin? Hún er komin úr skýrslu hæstv. umhvrh. Það er hann sem hefur lagt það fyrir þetta háa þing að það er mögulegt að loftslagsbreytingarnar leiði til þess að Golfstraumurinn hniki stöðu sinni, víki frá landinu og Ísland verði óbyggilegt. Það er hæstv. umhvrh. sem hefur einum þremur sinnum ítrekað þetta fyrir þinginu. Er það verjanlegt, herra forseti, frá siðferðilegu sjónarmiði að við ætlumst til að það séu einungis aðrar þjóðir sem taki á sig þær byrðar sem mögulega þarf til þess að Ísland verði áfram byggilegt? Mér þætti vænt um að hæstv. umhvrh. svaraði þeirri fyrirspurn hér á eftir.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að á morgun verður af hálfu ráðuneytisins kynnt afstaða ríkisstjórnarinnar til fundarins í Buenos Aires en hæstv. ráðherra gat eigi að síður ekki svarað því í fyrirspurn hérna áðan sem var beint til hans hvað ríkisstjórnin telur ásættanlega lausn. Með öðrum orðum, við vitum ekki hvað hæstv. ráðherrann hefur af stefnumálum í veganestinu þegar hann fer til fundarins.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að hafa metið hvaða afleiðingar það hefur fyrir Ísland varðandi stöðu þess í alþjóðasamfélaginu ef við skirrumst við að skrifa undir þegar fundinum og þessu ferli lýkur. Ég spyr því, herra forseti: Hvaða aðgerða telur hæstv. umhvrh. að verði gripið til gegn Íslendingum ef svo fer?