Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:44:16 (206)

1998-10-08 11:44:16# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er stundum talað um flokksræði og menn séu þvingaðir til þess að hlíta vilja flokka. Ég lendi aftur og aftur í þeirri stöðu að ég er talinn vera --- eða stjórnarandstaðan reynir að þvinga mig inn í minn flokk, þvinga mig undir flokksaga. Ég er hér ekki talsmaður þingflokks sjálfstæðismanna. Ég tala hér sem þingmaður og fylgi sannfæringu minni.

Það eina sem var í málflutningi mínum var það að ég setti spurningarmerki við þessa miklu kenningu sem byggir eingöngu á vísbendingum, eins og hv. þm. sagði, en ekki á vísindalegum staðreyndum. Þessi kenning öll sömul byggir á vísbendingum, reyndar nokkuð sterkum vísbendingum, en hún er ekki vísindalega sönnuð. Og það eru fleiri þúsundir, ef ekki tugþúsundir vísindamanna sem hafa skrifað undir plögg á móti henni þó að það séu kannski fleiri vísindamenn sem styðja hana.

[11:45]

Ég var ekki að biðja um rannsókn til þess að kollvarpa kenningunni, alls ekki. Ég vil bara vita hvort hún sé rétt. Það er það eina sem ég vil. Ég vil ekki kollvarpa henni en ég vil vita hvort hún sé rétt vegna þess að við erum að fara hérna út í þvílíkar efnahagslegar hömlur að þær skaða allt mannkynið. Við erum t.d. að stöðva það að Íslendingar geti notað sína hreinu orku til þess að reisa hér orkuver. Við erum að stöðva það með þessari bókun. Það er þó þjóðhagslega hagkvæmt og hagkvæmt fyrir heimsbyggðina í heild. Ég vil vita hvort þessi kenning sé rétt af því hún byggir enn bara á vísbendingu.