Endurskoðun á lögum um málefni aldraðra

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:11:47 (259)

1998-10-12 15:11:47# 123. lþ. 7.1 fundur 40#B endurskoðun á lögum um málefni aldraðra# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Í janúar 1990 gengu í gildi lög um málefni aldraðra með endurskoðunarákvæðum sem fram færu 1. janúar 1996. Í lögum þessum segir svo, með leyfi forseta:

,,Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða.``

Í þingsölum hafa alþingismenn tekist nokkuð á um þessi mál, einkum að því er lýtur að þjónustuþætti hjúkrunarheimila og vistheimila hvað varðar hjálpartæki og fleira. Einnig hafa komið upp oftar en ekki umræður um hvers konar þjónustu eigi að veita á vistheimilum eða hjúkrunarheimilum og hvaða kröfur eigi að gera til þeirra sem byggja og selja íbúðir og segja að þær séu sérhannaðar fyrir aldraða. Ég tel að full ástæða sé til að fá það fram hvað líði endurskoðun þessara ákvæða vegna þess að í svari hæstv. heilbrrh. frá 30. okt. 1996 kom fram að kappkostað yrði að ljúka endurskoðun laganna og leggja breytingar fyrir þing í upphafi árs 1997.

Ég endurtek því spurningu til ráðherra: Hvað líður endurskoðun þeirra laga? Hvenær er þess að vænta að þau verði lögð fram fyrir Alþingi?